Hver er ég?

Ég heiti Ragnheiður Lára Guðrúnardóttir og er fædd árið 1986. Ég er félagsráðgjafi á daginn (nú í fæðingarorlofi) en kerruperri á nóttunni. Ég bý með manninum mínum og þremur drengjum fæddum 2007, 2015 og 2018.

Það er tímabært að koma út úr skápnum. Í tíu ár hef ég leitast við að fela þennan sjúklega kerruáhuga, þagað þunnu hljóði í kaffiboðum og barnafmælum þegar talið hefur borist að kerrum til að koma ekki upp mig. Flestar vinkonur mínar hafa vitað af þessu og nokkrar gert óspart grín af mér. Ég hef skammast mín, reynt að tala mig til, þráð að vera eins og mæður sem geta látið sér einn Simo vagn duga og verið sáttar. Ég hef verið andvaka til fjögur að nóttu að á internetinu að reyna að finna kerru sem stenst allar mínar kröfur. Ég hef blótað kerrum og glaðst yfir þeim. Keypt og selt eins og djúpt sokkinn fíkill. En núna ætla ég að hætta að skammast mín fyrir þetta mjög svo sérkennilega áhugamál, nú ætla ég að leyfa því að blómstra og fjalla um það sem ég hef áhuga á og leyfa þér lesandi góður að koma með í þetta ferðalag um kerruheiminn.

Ég ætla að fjalla um allar kerrur sem ég hef átt (þær eru margar) ég ætla líka að fjalla um kerrur sem ég hef ekki prófað en skoðað og draumurinn væri svo að geta prufukeyrt ýmsar kerrur og fjallað um þær hér. Ég vona að þessi síða geti aðstoðað foreldra við val á kerru og fundið hvað henti sér og sínu barni best. Í versta falli verður þetta bara ég að tala við sjálfan mig um kerrur sem ég hef nú þegar gert í um áratug…. en kannski ekki á internetinu en hvað um það.

Ég tel mig ekki alvitran kerrusérfræðing en ég veit hvað ég vil og finnst gaman að fjalla um það sem ég hef áhuga á. Ég mæli alltaf með því að foreldrar fari í verslanir og prufukeyri þær kerrur sem þeir renna hýru auga til. Þá er starfsfólk barnavöruverslana uppspretta mikillar kerruvisku og sumir hafa jafnvel verið í bransanum lengi. Séð gamlar kerrur fara og nýjar koma þeirra í stað.

Þessi síða er ekki kostuð af neinu nema mínum eigin frítíma. Ég hef með mér til liðs tvö tilraunadýr, Bjart (fæddan 2015) og Mána (fæddan 2018) sem hafa ólíkar þarfir og því áhugavert að sjá hvaða kerrur samrýmast best þörfum okkar fjölskyldunnar. Þá á maðurinn minn einstaklega erfitt með að leysa úr flóknum stillingum og festingum (sem hann kallar japanskar gestaþrautir) og því langar mig til að sjá hvaða kerrur hann kann best að meta.

Þar sem mín skoðun þarf ekki að endurspegla val þjóðarinnar langar mig að biðja þig lesandi góður að skilja eftir athugasemd með þinni skoðun á kerrunni og/eða hafa samband við mig með tölvupósti á netfangið ragnheidur@umsogn.is