Kerruáhuginn

Ég hef verið mamma frá árinu 2007 þegar ég eignaðist fyrsta barnið mitt hann Birgi Orra. Þegar ég var ófrísk fór ég að huga að vögnum enda var það eitt af atriðunum á listanum stóra „það sem þarf fyrir barnið“. Ég leitaði ráða hjá reynslumeiri mömmu, konu sem átti nokkur börn og var með allt á hreinu að mér fannst. Hún hafi fyrir mig afar einfalt svar um vagnakaup. Ég skyldi kaupa annað hvort Emmaljunga eða Simo.

Internetið var vissulega til á þessum tíma en annað hvort var ég ekki góð í að googla eða google ekki til í þeirri mynd sem er núna. Ég fann a.m.k. ekki aðrar upplýsingar um þessar kerrur heldur en inni á sænskum og norskum mömmuspjall hópum sem ég botnaði lítið í. Ég komst fljótlega að því að Simo fékkst í versluninni Fífu og Emmaljunga í einhverri umdeildri verslun niðri í miðbæ. Ég komst einnig að því í gegnum mömmuspjallið á blandinu að mæður virtust skiptast í tvo ættbálka eftir því hvora gerðina þær völdu. Hvort væri ég meira Emmaljunga mamma eða Simo, ég upplifði spennuna þannig að líklega hefði verið hægt að etja þessum tveimur hópum saman í barnavagnaspyrnu keppni í  Grasagarðinum. Þetta var orðið hið flóknasta mál og á endanum fór ég bara til Danmerkur með barnsföður mínum og sá Brio vagn á útsölu og dröslaði honum heim. Ó hann var svo falllegur, á litinn eins og haust og svo nýr og glansandi. Ég fjalla um hann hér.

Eftir að Birgir Orri kom í heiminn fann ég hvað mér þótti ótrúlega gott að fara í gönguferðir með hann í vagninum. Hann undi sér illa annarsstaðar en í ruggi, fangi eða á brjósti en gat hins vegar sofið tímunum saman á rölti í vagninum. Gönguferðirnar reyndust mér því góð pása frá barnaumönnun en einnig besti staðurinn til að hugsa, núllstilla mig og komast út úr litlu íbúðinni okkar á stúdentagörðunum. Gönguferðirnar voru yfirleitt frá Eggertsgötunni fram hjá Háskólanum, Tjörninni, í gegnum Þingholtin eða upp Laugarveginn og til baka. Ég fann þó fljótlega að mig langaði í léttari vagn sem auðveldara væri að keyra. Hafði séð kerru með þremur hjólum og þótti hún áhugaverð og ákvað að kíkja í Fífu og Ólafíu og Óliver. Þaðan var ekki aftur snúið og ég varð reglulegur gestur í barnavöruverslunum. Var farin að eiga í persónulegum tengslum við starfsmennina þar og íhugaði það jafnvel að hætta bara í námi og fara að vinna í einni slíkri verslun. Fyrsta þriggja hjóla kerran mín var Graco Trekko og eftir að hafa átt hana í smá tíma sá ég hvaða eiginleika ég vildi að kerran mín hefði og þá hófst kerruleitin mikla sem varað hefur síðustu 10 árin.

Því miður óx Birgir Orri upp úr kerrunum en árið 2014 varð ég ófrísk af Bjarti.  Ég skammast mín að segja það en ég var nánast jafn spennt yfir því að fara eignast barn og að þurfa að velja mér nýja kerru. Bjartur kom í heiminn árið 2015 og á þessum fimm árum frá því að ég hafði síðast verið með barn í kerru hafði greinilega orðið mikil þróun í kerruheiminum. Það var ekki lengur bara Emmaljunga og Simo. Það var komið Bugaboo og Britax og allskonar. Internet verslanir erlendis buðu upp á stórkostlegt úrval! Nú vandaðist heldur betur valið. Það var erfitt að vera fíkill í þessu mikla kerruframboði. Mig langaði í kerru/vagn sem væri þéttur en vildi einnig fá mér „fjölnota ferðasett“ eða kerrugrind sem hægt væri að nota fyrir bílstól, kerru og burðarúm. Úrvalið gríðarlegt og eftir að hafa skoðað mögulega allt sem var í boði ákvað ég að hætta að pæla svona mikið í þessu og reyna að vera bara eðlileg eins og annað fólk og fékk mér notaðan Emmaljunga vagn og Brio Sing fjölnota kerru. Þetta stoppaði nú hvorutveggja stutt við og elsku Bjartur fékk að prófa þær nokkrar svo sem Carena Swing, Bugaboo Cameleon, Silver Cross Reflex og Baby Joger City Elite sem við elskum enn í dag.

Árið 2017 varð ég ófrísk af Mána mínum og hófst þá kerruþráhyggja af alvöru. Nú vissi ég enn betur hvað ég vildi eða vildi ekki og þurfti einnig mögulega systkinakerru! Eftir andvökunætur á google í leit af af bílstólafestingum, kerrum og systkinakerrum enduðum við á að kaupa okkur Silver Cross Pioneer (umfjöllun hér). Nú er Máni fjögurra mánaða og ég búin að eiga hann heila eilíf að mér finnst. Allavega það lengi að ég er bæði búin að selja báðar Silver cross kerrunar en á enn Baby Jogger City Elite kerruna sem hentar okkur ekki fullkomlega eins og er. Nýlega festi ég svo kaup á gömlum (2013 árg) Bugaboo Buffalo vagni sem ég er að reynsluaka ????

Draumakerran mín:

Ég fann það fljótlega með fyrsta vagninn minn að slíkur gripur hentaði ekki mínum lífstíl. Mér þótti leiðinlegt að keyra hann og vesen að taka hann með mér í bílinn. Ég geng mikið og finnst gaman að ganga í nýju umhverfi. Þess vegna þarf ég að geta tekið kerruna auðveldlega með mér í bílinn. Mér þykir einnig afar skemmtilegt að hanga í verslunarmiðstöðum (já ég skammast mín) og vil geta notað kerrugrind fyrir bílstólinn. Það heillar mig ekki að vera með bílstól á kerru heldur vil ég geta tekið vagn/kerrustykkið alveg af fyrir bílstólinn. Ég hef einnig notast við það þegar ég þarf að hlaupa eitthvert inn með barnið s.s. banka, læknis o.s.frv í stað þess að halda á stólnum. Ég vil hafa góð dekk sem þola snjó og gangstéttarkanta. Þá þarf kerran/vagninn að vera létt til að ég geti dröslað henni upp á aðra hæð.

Draumakerran mín væri með snúningsdekkjum svipað og er á Bugaboo Fox og mjög svo léttu stelli. Hún væri með góðri innkaupakörfu sem þyldi þungan varning eða a.m.k. einn góðan bónuspoka. Kerran sjálf væri með burðarrúmi eða vagnstykki, kerrustykki og bílstólsfestingum fyrir a.m.k. tvær gerðir af bílstólum. Burðarrúmið væri 90 sentimetrar að lengd og með baki sem hægt væri að lyfta upp svo barnið gæti setið eða hálf legið með stuðningi í burðarrúminu.

Burðarrúmið eða vagnstykkið væri úr þéttu efni klætt bambus að innan líkt og er í Silver Cross Pioneer. Því fylgdi svunta sem hægt væri að smella upp á skerminn eins og á Simo vögnunum og skermurinn væri eins og á Baby Jogger City Elite og næði vel niður á kerruna sjálfa með glugga og loftgötum.

Kerrustykkið, væri um 100 sentimetrar með baki sem hallast alveg lárétt og fótskemli. Fimm punkta belti með púðum yfir axlir. Ungbarnainnlegg úr memory foam fylgdi með sem og bakki til skipta út fyrir slána. Hægt væri að snúa kerrustykki að foreldrum og út í heiminn. Kerrustykkið sjálft væri í góðri hæð. Svunta fylgdi kerrustykkinu sem hægt væri að smella í skerminn og gera kerruna þannig þétta. Hægt væri að hafa skerminn sjálfan í þremur hæðastillingum eftir því hvað barnið er hávaxið.

Þegar kerran væri lögð saman þyrfti aðeins eitt handtak líkt og með Baby Jogger City Elite. Handfangið væri stækkanlegt þannig að það væri auðveldlega dregið út með einum takka líkt og á Silver Cross Pioneer. Dekkjunum væri kippt af með einum takka til að minnka umfang kerrunnar. Einföld fótbremsa eða handbremsa (mér finnst þær báðar fínar).

Þá vitið þið hvernig drauma kerran/vagninn minn lítur út og hafið þá einhverja hugmynd út frá hverju ég met þær kerrur sem ég prófa og/eða skoða.