Ragnheiður Lára Guðrúnardóttir

Kerrutips: Innlit í barnavöruverslanir

3. nóvember, 2018 | Kerrur

Ég mæli með því að verðandi foreldrar taki sér dag saman til að skoða úrvalið í helstu barnavöruverslunum. Áður en lagt er af stað er gott að vera búinn að kynna sér vörurnar á netinu til fá hugmyndir um hvað það er sem maður er að leita af. Ég er kannski svona galin en ég verð að skoða vöruna með eigin augum, prufa, keyra og þukla.  Þegar farið er í kerruskoðanaferð er gott að vera vopnaður síma og málbandi og mæla lengdir, breiddir, stærðir og allt það sem manni kann að detta í hug.

Ólétta vinkona mín dró mig (eða var það öfugt!) nú á dögunum með sér í kerruleiðangur. Hún er í nokkuð svipaðri stöðu og ég var í kerruleit ólétt af Mána, þ.e. eldra barnið hennar verður korter í þriggja ára þegar krílið fæðist. Með slíkt aldursbil eru systkinakerrur á mörkunum að henta þar sem þyngdarviðmið hvers sætis er yfirleitt að hámarki 15 – 20 kíló. Hún er fyrst og fremst að leita sér af kerru sem hægt er að nota sem vagn fyrstu mánuðina, er skjólgóð og létt. Þá vill hún kerru sem hægt er að nýta fyrir eldra barn með systkinasæti, systkinapalli eða og þyngdarviðmiðum sem henta báðum börnum svo þau geti samnýtt kerruna.

Mér tókst að sjálfsögðu að gleyma málbandinu og í einni verlsunnini var ég ekki heldur með símann minn svo mér tókst ekki að mæla alla fleti eins og ég vildi hafa gert!

Hér koma þær kerrur sem okkur leist hvað best á:

Fyrsta stopp okkar vinkvenna var í nýju verslunina Nine Kids sem opnaði núna 1.11.2018 í Fellsmúla. Sú verslun hefur til sölu Cybex kerrur og stóla og viðurkenni ég það hér með að ég var búin að bíða með eftirvæntingu eftir því að geta þuklað á Cybex kerrunum. Við (allavega ég) féllum algjörlega fyrir Cybex Priam. Hjálpi mér allir, þessi kerra tikkar í ansi mörg box á draumakerrunni.

 

Cybex Priam

 

Cybex Priam: Þyngd 12 kg, þyngdarviðmið 17 kg skv. EU stöðlum en 25 skv. USA stölum. Góð fjöðrun með gormum, ágætlega stór burðarkarfa, Hægt að snúa kerrustykki fram og aftur, kerrustykki leggst alveg flatt í lárétta stöðu, stærð kerrustykkis 90*33, ágætur skermur á báðum stykkjum, vagnstykki með góðri dýnu, stærð vagnstykkis 89*33 cm, breidd á milli hjóla 60 cm, leggst ágætlega saman, froðufyllt dekk, hægt að nota kerrugrind með bílstól.
Verð: 170.000 fyrir grind, vagnstykki, og Lux kerrustykki.

Næsta stopp var í verslunina Fífu og þar skoðuðum við fyrst og fremst Britax Smile 2 og Emmaljunga kerrurnar NXT60F og NXT90F.

 

Britax Smile 2

 

Britax Smile 2: Stellið sjálft 8,4 kg, kerrustykki 3,4 kg, vagnstykki 4 kg, þyngdarviðmið 17 kg. Ágætis fjöðrun, stór burðarkarfa, Kerrustykki stærð 100 * 30, vagnstykki stærð 82*39, kerrustykki leggst alveg alveg flatt í lárétta stöðu, mjög góður skermur sem einangrar vel, hægt að snúa kerrustykki í báðar átti, svunta fylgir með. Skermur á vagnstykki ágætur, leggst ágætlega saman, loftdekk, hægt að nota kerrugrind með bílstól (britax bílstólafestingar fylgja með)

Emmaljunga NXT F 90

 

Emmaljunga NXT60 og 90 F: Erfitt að vera með nákvæmar tölur hér þar sem að miklu leyti er hægt að púsla sínum vagni saman. Hægt er að velja um loftdekk eða froðufyllt en þau froðufylltu voru mun stamari í akstri en hin. Mín kerra væri líklega NXT90 F Olive grænum lit (ólífugrænn hljómar bara ekki vel!), á froðufylltum dekkjum með léttari gerðina af burðarrúmi. Kerrustykkinu er hægt að snúa í báðar áttir og það er 100*32 að stærð. F- ið stendur fyrir það að kerrusætið leggst alveg flatt í lárétta stöðu. Þyngdarviðmiðið er 15 kg er ég er nokkuð viss um að hún þoli þyngra en það. Kerrusætið sjálft er 6,1 kg og ég gæti trúað því að grindin sé um 10 kg sem gera um 16 kíló. Burðarúmið er 4,1 kg og stærðin á því er 76*21. Kerran leggst ágætlega saman en er nokkuð fyrirferðarmikil að mínu mati.
Verðið: á kerrunni er 144.900 og vagnstykkið er á 45.000

Þá kíktum við í verslunina Petit og skoðuðum enn og aftur Bugaboo Fox. Ég er búin að fjalla um hann nokkuð ítarlega hér. 

Bugaboo Fox

 

Bugaboo Fox: Þyngd 9,9 kg. Ég finn hvergi stærðirnar á vagnstykkinu en reikna með að það sé um 80 cm. Hægt er að snúa kerrustykki í báðar áttir en það leggst ekki flatt í láréttri stöðu. Mjög góður skermur. Nokkuð auðvelt að leggja kerruna saman en í nokkrum skrefum. Froðufyllt snúningsdekk.
Verð: 180.000 – 203.000

Við komumst því miður ekki lengra í skoðunarferðinni að þessu sinni en okkur langaði einnig að fara í Ólafíu og Oliver, Húsgagnaheimilið og Móðurást.

Hefðum við farið í Ólafíu og Oliver hefðum við skoðað kerruvagninn Basson Nordic Lux:

Basson Nordic Lux

 

Basson Nordic Lux: Grind með snúningsdekkjum (loftdekk), kerrustykki sem hægt er að snúa í báðar áttir, leggja sætisbak flatt í lárétta stöðu og hreyfanlegur fótskemill. Vagnstykki er 97 cm langt!! Með stillanlegu baki. Þá fylgir einnig með burðarrúm sem hægt er að nota í vagnstykkinu eða kerrustykkinu. Stellið með vagnstykki er 16,7 kg. Ekki er hægt að setja bílstól á grindina.
Verð: 149.990 krónur

Í Húsgagnaheimilinu hefði ég svo sýnt vinkonu minni sérstaklega Baby Jogger City Elite (sem er uppáhalds uppáhalds kerran mín) með delux vagnstykki.

Baby Jogger City Elite og Delux vagnstykki

 

Baby Jogger City Elite og vagnstykki: City Elite kerran er rétt rúm 12 kg, sæti snýr aðeins fram, dekk eru froðufyllt og að öllu leyti er kerran afar þægileg í notkun (sjá umsögn hér). Til að nota vagnstykkið þarf helst að taka sætisáklæðið af og smella vagnstykkinu á. Delux vagnstykkið er með góðu áklæði að innan og mjúkri dýnu. Skermurinn nær ekki eins langt niður og á kerrunni sjálfri. Stærðir vagnstykkisins eru 79L x 33B x 20H. Þá er hægt að setja bílstól á kerruna með bílstólafestingum.
Verð: 119.000 fyrir kerru og vagnstykki.

Í Móðurást hefðum við skoðað Silver Cross Wave. Ég var svolítið ósátt með Pioneer kerruna (sjá umsögn hér) en eftir að hafa skoðað Wave í samanburði við hana sá ég að dekkin á Wave eru mun veglegri sem og dempun mun meiri. Þá nýtist kerran bæði sem systkinakerra og fyrir eitt barn.

Silver Cross Wave: Þyngd 19,5 kg, Hægt að svissa á milli vagnstykkis og kerrustykkis og bílstóls á auðveldan hátt. Vagnstykki er Bambus klætt með góðri dýnu. Lengd vagnstykkis er 82 cm. Kerrustykki er fast í sitjandi stöðu og ekki hægt að hafa sætið flatt í láréttri stöðu. Skermurinn er ágætur en ekki eins langur og á Bugaboo og Baby Jogger City Elite/Mini. Svunta fylgir vagn- og kerrustykki. Auðvelt að leggja kerruna saman en hún tekur svolítið pláss.
Verð: 164.900 fyrir grind, vagnstykki, kerrustykki, regnsplast og bílstólafestingar.

Ég á eftir að kynna mér kerrurnar í versluninni Minimo en þær virka mjög spennandi.

Það voru aðallega tvær kerrur á þessum lista sem gáfu mér WOW upplifun. Hverjar skildu það nú vera!