Ragnheiður Lára Guðrúnardóttir

Umsögn: Cybex Priam

20. nóvember, 2018 | Kerrur

Ég var aðeins búin að vera að bíða eftir því að Cybex kerrurnar hefðu innreið sína á landið. Sjálfri finnst mér erfitt að panta kerrur í gegnum netverslun því ég vil helst skoða þær og jafnvel máta börnin í áður en ég kaupi. Ég var því yfir mig spennt þegar verslunin Nine Kids fór að auglýsa Cybex kerrurnar og að þær væru til sýnis í versluninni. Eins og fram kom í þessari færslu hér fór ég á stúfana með óléttu vinkonu minni í leit að hentugum vagni fyrir ófædda barnið. Leið okkar lá í Nine Kids þar sem ég ætlaði að sýna henni og skoða sjálf Cybex Balios S. Kerru sem við kerrunöttararnir höfðum aðeins rætt um í facebook hópnum barnakerrur – tips og sala. Við komu í verslunina rákum við strax auga á aðra kerru. Þvílíka dýrðin, ég sá eiginlega ekkert annað en hana! Mögulega af því að henni var stillt upp á palli (og allt sem er uppi á palli er til þess ætlað að vekja athygli, ekki satt!). En líka að því HJÁLPI MÉR ALLIR KERRUGUÐIR! ÞVLÍK FEGURÐ! Ég er ekki einu sinni að ýkja hérna! Svona leið mér bara í hreinskilni sagt.

Þetta var hin stórmagnaða Cybex Priam sem svipti mig ráði og rænu og í raun er minning mín af okkar fyrstu kynnum í hálfgerðri þoku. Mig rámar í að hafa beðið einn eiganda verslunarinnar vinsamlegast að sækja málmband hið snarasta. Þennan grip þyrfti að mæla út strax! Við hófumst handa við mælinga og þar fékk ég sæluvímukast númer tvö! Vagnstykkið var hvorki meira né minna en 90 sentímetrar að lengd!!

Ég held að ég hafi svo sirka bát fjarað algjörlega út þegar mér varð ljóst að sætisbakið á þessum stórkostlega grip leggst alveg flatt í láréttri stöðu og væri heilir 99 sentímetrar á lengd. Ég fór heim þetta kvöld og lá andvaka yfir erlendum umsögnum langt fram eftir nóttu. Ég hugsaði um hana dag, eftir dag eftir dag og fékk hana svo loks í helgarpössun. Við smullum saman, ást við fyrstu sýn og brátt verður hún mín (vá byrjun á kerruljóði?)

Cybex er þýskt merki og er Priam kerran (og Mios) hönnuð með verk Eames hjónanna að innblæstri. Í verkum þeirra fór saman arkitektúr og list sem gerði hönnun þeirra klassíska, neytendavæna og sniðuga. Við hönnun Priam kerrunnar spurðu hönnuðir Cybex sig hvernig Eames hjónin hefðu hannað kerrur væru þau á lífi í dag. Stell Priam og Mios eru hönnuð að fyrirmynd hins þekkta Eames plaststóls sem hefur verið vinsæl, klassísk, tímalaus hönnun og notið sín á fjölda heimila  í um 70 ár.

Sjá meira um hönnunarsögu hér:

En það má því með sanni segja að Priam sé falleg kerra, ó svo falleg! En hún er ekki bara fyrir augað heldur hefur hún eiginleika hinnar fullkomnu kerru að mínu mati. Priam tilheyrir hópnum fjölnota ferðakerrur en hægt er að svissa á milli vagnstykkis, kerrustykkis og bílstóls á auðveldan hátt. Hvert stykki er keypt sér og þannig er hægt að sleppa því að kaupa vagnstykki ef barnið er orðið of stór í vagnstykkið eða vilji maður láta kerrusætið duga en það hentar börnum frá 0 –  4  ára. Bæði vagn- og kerrustykki koma sem sér vara með skyggni og öryggisslá svo það er ótrúlega lítið mál að skipta á milli vagns og kerru. Það hefði t.d. hentað mér mjög vel með tvö börn  á ólíkum aldri sem nýttu sömu kerruna. Þá fylgir rengplast með kerrustykkinu og svo bílstólafestingar fyrir Cybex bílstól (passar líka Maxi- Cosi) með stellinu. Cybex stólarnir eru þá einnig algjörlega frábærir og hafa sumir þeirra þann eiginleika að hægt er að gera þá flata úr sitjandi stöðu.

 

Vagnstykkið
Vagnstykkið er með góðum skerm sem hægt er að opna flipa fyrir loftgötum. Skermurinn fer vel yfir vagnstykkið og veitir góða einangrun. Svunta er á vagnstykkinu sem er smellt á og leggst yfir stykkið. Þá er hægt að smella svuntunni upp í skerminn sem er algjörlega frábært og hentar vel litlum krílum í vetrarkuldanum. Dýnan í vagnstykkinu er bæði þykk og mjúk, 77 sentímetrar á lengd og 30 sentímetrar á breidd. Þá er vagnstykkið sjálft 90 sentímetrar á lengd og 39 sentímetrar á breidd. Þykk bólstrun er í kringum dýnuna svo vel fari um lítinn kropp. 6 ½ mánaða Máni minn á ágætis pláss eftir í vagnstykkinu og hentar það líklega upp í átta mánaða aldur! Öryggissláin er í formi handfangs á vagnstykkinu og er hún leðurklædd.

Það sem ég elska svo einna mest við Priam kerruna er „one handed“ stillingarnar á kerrunni. Nánast allar stillingar kerrunnar bjóða upp á að átt sé við hana með einni hendi. Þegar vagn- og kerrustykki er t.d. tekið af er ýtt á taka á sitthvorri hliðinni og þegar þeim er ýtt inn haldast þeir inni þannig að ekki þarf að ýta á báða samtímis. Ekki er hægt að leggja kerruna saman með vagnstykkinu á.

 

Kerrustykkið
En það er ekki bara lengd vagnstykkisins sem heillar við Priam. Nei það er nefnilega fyrst og fremst hið stórkostlega LUX sæti. Greinilegt er að hönnuðir Cybex hafa hlerað hugsanir marga foreldra í leit sinni af hinu fullkomna kerrusæti því dömur mínar og herrar hérna er það! Eða svona næstum því algjörlega fullkomið. Kerrusætið er rétt tæpir 100 sentimetrar á lengd og 34 sentímetrar á breidd. Með fótskemli sem hægt er að hækka og lækka og það sem meira er sætisbaki sem hægt er að leggja í alveg flata lárétta stöðu. Sætisbakið sjálft bíður upp á fjórar hallastillingar og er mjög þægilegt að breyta hæðinni með takka á bakinu. Skermurinn er mjög fínn, fer vel yfir kerruna þegar hún er í sitjandi stöðu en mætti fara einu broti lengra þegar kerran er í láréttri stöðu. Hann veitir mjög góða einangrun að mínu mati en í mikilli rigningu og roki væri eflaust gott að grípa í regnplastið. Árið 2019 er þó væntanlegt fyrir Priam kerruna svokallað lite cot sem nýtist sem hálfgert ullarfóðrað vagnstykki fyrir lítil kríli en hægt er svo nýta hana sem svuntu á kerruna fyrir stærri börnin.

 

Fimm punkta belti er á kerrustykkinu og eru hliðarólin og svo ólin sem fer yfir axlir barnsins fastar saman og því eru aðeins tvær festingar sem fara í smelluna. Festingin er afar þægileg í notkun en þegar ólarnar eru fastar saman líkt og á Lux kerrusætinu getur það verið leiðinlegt að þræða kerrupoka í kerruna þar sem það þarf að losa alveg efstu ólina og þræða hana svo aftur í sætið. Auðvelt er að hæðastilla ólarnar með því að renna efstu ólunum á hálferðum sleða. Sætið sjálft er með afar góðri bólstrun og fór vel bæði um Mána og Bjart í því. Kerrustykkinu er hægt að snúa bæði fram og aftur. Hægt er leggja kerruna saman með kerrustykkinu en það verður þá að snúa fram.

 

Stellið
Stellið sjálft er vissulega fallegt en það er einnig létt og er í kringum 8 kíló. Það er góð fjöðrun í stellinu bæði í grindinni sjálfri en einnig er gormafjöðrun. Dekkin eru froðufyllt sem að mínu mati eru bestu dekkin! Þau eru í góðri stærð og ráða vel við ýmiskonar undirlag. Hægt er að fá a.m.k. tvær gerðir af dekkjum eftir því hvaða aðstæður þau þurfa að ráða við, götur eða moldarvegi.  Þá er einnig hægt að fá skíði í stað fremri dekkjanna sem gaman væri að prófa í snjó! Hægt er að læsa fremri dekkjunum svo kerran ráði betur við erfiðan jarðveg. Ein mesta snilldin við Cybex Priam er svokallað two wheel mode  sem mjög auðvelt er að koma kerrunni í. Sú stilling gerir manni kleift að fara með kerruna í flestar aðstæður s.s. strönd, snjóskafla, skógarstíga eða upp tröppur. Halda þarf inni tveimur tökkum samtímis sitthvoru megin á handfanginu og ýta svo aftari dekkjunum að fremri dekkjunum til að koma kerrunni í þessa stillingu. Henni er svo nánast bara vippað aftur til baka í venjulega stillingu.

 

 

Bremsan á Priam er algjör snilld að mínu mati, hún virkar eins og hálfgerð sveif og er afar auðvelt að eiga við hana. Bremsan fellur undir flokkin „flip flop friendly brake“ þar sem ekki þarf að ýta upp með tánum á hana heldur er stigið á bremsuna bæði þegar hún er sett á og svo tekin af.

Innkaupakarfan á Priam er í góðri stærð 40cm*34cm*24cm og rúmar meira en hún virðist gera! Þá er hægt að loka körfunni með segulflipa sem er frábær eiginleiki, bæði hentugt að það sem er í körfunni blotni ekki eða verði skítugt og gerir Priam fallegri ásýndar.

Handfangið er leðurklætt og bíður upp á fjórar mismunandi hæðastillingar frá lægstu stillingu 98 cm til hæstu 108 cm. Hægt er að breyta hæðastillingum með einum taka á handfanginu sambærilegt og er á Silver Cross Pioneer og Wave.

Hægt er að leggja kerruna saman með einni hendi en þrýst á takka á handfanginu og það fært alveg niður þar til heyrist klikk. Þá er tekið í miðju grindarinnar og falla dekkin þá saman. Stellið læsir sér ekki sjálft er sem er smá galli því halda þarf stellinu saman þegar það er svo sett í bíl. Hins vegar er afar auðvelt að leggja stellið saman og hægt er að draga það um sem er afar þægilegt. Þegar kerran er lögð saman með sætinu á er tosað í takkann sem notaður er til að breyta hæð sætisbaksins. Sætinu er hvolft fram og svo gert það sama, handfanginu þrýst niður þar til klikkar í því og falla dekkin þá saman.

 

Cybax Priam er aðeins hægt að kaupa í versluninni sjálfri, Nine Kids Fellsmúla 24. Eins og er er hægt að velja um tvo liti á stelli, matt svartan og króm. Nokkrir litir eru á kerru- og vagnstykkjum. Ég mæli með því að þið skoðið á Cybex síðunni hvað þið mynduð vilja og hafið svo samband við verslunina og pantið. Ef ykkur liggur ekki lífið á að fá kerruna mæli ég með því að hinkra eftir endurbættri Priam sem kemur eftir áramót. Hægt er þá að panta endurbætt vagnstykki sem er aðeins stærra en það sem til sölu nú. Lux sætið virðist vera eins en hægt er að fá Lite Cot sem ég fjallaði um hér að ofan. Þá verður aukið úrval lita á stellum, rósagull með brúnu leðri, króm með svörtu eða brúnu leðri og svo og svart matt. Skoða 2019 Priam hér:

Sjálf er ég búin að leggja inn pöntun á krómstelli með brúnu leðri, Lux sæti í litnum Manhattan Grey og lite cot. Ég ætla svo að fá mér systkinapall þegar hann kemur!

 

Prufukeyrsla:
Við mátuðum báða drengina í kerrustykkið og sátu þeir báðir afar vel í því sem og þægilegt var að keyra kerruna þrátt fyrir að vera með þungt barn í henni. Máni svaf síðdegislúr í kerrustykkinu og fór afar vel um hann þar. Þá mátaði hann einnig vagnstykkið og líkaði það vel. Við fórum í göngutúr niður í bæ eins og við gerum svo oft og var þá lítið mál að skella kerrunni í bílinn. Það er mikilvægt fyrir okkur að auðvelt sé að leggja kerruna saman þar sem að við tökum hana oft með okkur í bílinn og geymum einnig inni í íbúðinni okkar. Það var gott að keyra kerruna í bænum og réði hún vel við gangstéttakanta og brot í gangstéttum. Við féllum algjörlega fyrir henni og hlökkum til að eignast okkar eigin Priam!

 

 

Lykilpunktar:

  • 12,7 kg
  • Þyngdarviðmið 17 – 25 kg (fer eftir USA eða EU stöðlum)
  • Stærðir:
    • Sæti: L 99 cm
    • Vagnstykki lengd 90 cm
    • Samanbrotin: L 95,5 cm, B 57,5cm, H 45,5 cm
    • Breidd á milli hjóla: 60 cm.

Kostir:

  • Rúmgott vagnstykki
  • Stórkostlegt kerrusæti sem leggst alveg flatt í láréttri stöðu
  • Þægileg og einföld í notkun
  • Góður skermur
  • Froðufyllt dekk sem ráða vel við gróft undirlag
  • Tveggja hjóla stilling
  • Hentar vel í notkun fyrir ungabarn og eldra barn þar sem auðvelt er að skipta um vagn- og kerrustykki.
  • Hæðastillingar á handfangi
  • Kerrustykki getur snúið fram og aftur

Gallar:

  • Systkinapallurinn mætti vera meira spennandi
  • Læsist ekki samanlögð

Samantekt: Cybex Priam hefur allt það sem foreldrar gætu óskað sér bæði fyrir sig og barnið. Priam býður upp á mjúkt, rúmgott og vel einangrað vagnstykki fyrir lítið kríli og lúxus kerrusæti sem bæði er rúmgott og hægt að leggja flatt í láréttri stöðu. Þá er Priam afar einföld og þægileg í notkun sem er ákveðinn orkusparnaður fyrir þreytta foreldra á ferð og flugi! Til viðbótar Við þetta allt saman hefur útlitið á Priam WOW áhrif þar sem hönnun hennar er klassísk innblásin af verkum Eames hjónanna.

p.s. Á instagram (notendanafn kerrutips) má sjá munnlega umsögn í highlights stories undir Cybex Priam og samanburð á Priam, Bugaboo Fox og Silver Cross Coast.