Freyja Leópoldsdóttir

Umsögn: Baby Jogger City Select Lux

23. nóvember, 2018 | Kerrur

Að finna draumakerruna hefur ávallt verið erfitt fyrir mig og held ég að hún sé ekki til. Ég komst líka að því fljótt að ein kerra dugar ekki. Ég á þrjú börn, fimm ára, tveggja ára og tveggja mánaða.

Með fyrsta barn átti ég þessa tíbísku “fjölnota kerru” á þremur hjólum, grind með kerrustykki, vagnstykki og festingum fyrir bílstól. Þegar leið á veturinn fannst mér hún alls ekki hentug og keypti notaðan Simo vagn sem hefur reynst virkilega vel. Þegar farið var til útlanda var fjölnotakerran fyrst tekin með en hún lagðist saman grind sér og kerrusæti í heilu lagi eins og flestar aðrar í þeim flokki. Hún tók því mikið pláss og var alltaf fyrir mér í bílnum. Þá var keypt tíbísk, en vegleg, regnhlífakerra. Mér fannst hún ómöguleg, leiðinlegt að keyra með 2 haldföng, farangursgrind lítil og hún tók frekar mikið pláss ósamsett og því seldi ég hana fljótlega. Barn tvö kom þremur árum seinna og notaði ég sama combo en þegar fara átti í utanlandsferð með 4 ára og 1 árs var fjárfest í YOYO+ sem hentaði í það og komst í handfarangur, algjör snilld en nánar um það í annarri umsögn.

Núna, tveimur árum seinna þegar þriðja barnið kom þá varð ég að eignast systkinakerru. Ég skoðaði bæði kerrur sem fást á Íslandi og ekki, horfði á mörg hundruð youtube video, fór í allar barnavöruverslanir sem ég fann á ferðalögum mínum erlendis (sem voru nokkur á meðgöngunni) osfrv.

Kröfurnar mínar voru ekkert flóknar að mér fannst. Kerran þyrfti að:

  • Henta bæði í notkun fyrir tvö börn og eitt
  • Pakkast vel saman í bílinn
  • Boðið upp á að hafa bílstól og vagnstykki á sama tíma
  • Hafa góða fjöðrun
  • Hafa góð dekk (helst loftdekk, já ég er enn þar)
  • Vera nett þegar notuð er fyrir eitt barn

En það var hægara sagt en gert! Ég komst fljótt að því að nett og loftdekk áttu ekki saman.

Það að kerran pakkaðist vel saman var algjört skilyrði. Ég hef átt fjölnotakerru með kerrustykki í heilu lagi sem ekki var hægt að minnka og þurfti að taka af til að brjóta saman grindina og vildi ekki aftur slíka kerru. Einu kerrurnar sem ég fann sem stóðust þessar væntingar voru Baby Jogger City Select Lux og Phil and Teds Voyager. Allar aðrar þurfti að pakka saman með sæti sér, eða með sæti sem pakkaðist ekkert saman og tók því of mikið pláss.

Valið stóð því einungis á milli þessara tveggja en mér tókst ekki að finna P&T kerruna neinsstaðar til að koma aðeins við og prófa og því stóð Baby Jogger City Select Lux ein eftir og var fjárfest í henni.

 

Kerran mín
Ég keypti grindina með einu kerrustykki, pakka fyrir litla vagnstykkið (notað að hluta úr sætinu), auka sætið (því fylgja stangirnar fyrir neðri stellingu) og bílstólafestingar. Auk þess keypti ég flugnanet á bæði stykkin sem ég hefði getað sleppt, þar sem mér finnst þau of dökk og þessi almennu betri.

Ég ætla síðan að bæta við einum bakka og innkaupapokanum við tækifæri. Jafnframt hef ég mikið verið að spá í Delux vagnstykkinu og mun eflaust enda á að kaupa það. Ástæðan fyrir því að ég gerði það ekki upphaflega var sú að ég gat ekki haft það og bílstólinn í einu, en það er samsetning sem ég nota töluvert þar sem ég er í námi og hef tekið barnið með mér í skólann og að læra og vil ég ekki hafa stólinn kaldan í bílnum á meðan og vil ekki hafa barnið of lengi í honum heldur þannig að ég færi hann í vagnstykkið þegar inn er komið.

Notkunin hjá mér er að mestu þríþætt

  • Eitt ungabarn í vagnstykki eða bílstól
  • Ungabarn í vagnstykki og tveggja ára í sæti
  • Vagnstykki og bílstóll í einu

 

Fyrstu kynni
Mér brá aðeins þegar ég fékk kerruna í hendurnar en grindin var mun þyngri en ég gerði mér grein fyrir, þrátt fyrir að hafa skoðað hana vel. Sætið er aftur á móti mjög létt og heildarþyngdin því ekki mikil. Á eldri fjölnota kerrunni minni var grindin létt en sætið frekar þungt og fannst mér þetta skrítið fyrst þó ég skilji það vel, þar sem grindin þarf að bera tvö börn og farangur.

Gallinn við þetta er að mér finnst grindin helst til of mikil um sig og þung og þegar ég þarf rétt að skjótast með ungbarnastólinn á ég það til að bera hann frekar en að taka grindina úr skottinu, eitthvað sem ég gerði aldrei með gömlu grindina.

Ég var einnig smá stund að venjast því að þyngdarpunkturinn er annar en á eldri kerrunum okkar en það lagaðist fljótt. Þegar ég er með vagnstykkið niðri og sætið uppi þarf ég samt að ýta með fætinum á grindina til að fara upp kanta eða ýta fast á stýrið þar sem hún er frekar framþung.

Kerran er falleg og eftir að hafa sett kerrusæti, vagnstykki og bílstólafestingar á einu sinni þá var ekkert mál að gera það í næstu skipti. Mér fannst samt heldur flókið að breyta sætinu í vagnstykki og var frekar lengi að því. Þar sem ég er enn að nota vagnstykkið hef ég ekki prófað að breyta til baka.
Til að festa efnið á grindurnar er franskur rennilás, á hann það til að festast í efninu og skemmist það með tímanum.

Að taka kerruna í sundur er lítið mál eins og með flestar Baby Jogger kerrur, en það er haldfang sitthvorum megin á grindinni sem gripið er í bæði í einu og kerran smellur saman. Þetta er samt ekki alveg nógu auðvelt og virðist maður þurfa að taka í báða á sama tíma, annars höktir þetta. Þarf þá að sleppa takinu og toga aftur. Ég hef einnig lent í því að annað framdekkið snýr ekki rétt og þá smellur kerran ekki saman. Ekkert vesen, en nokkrir hlutir sem þarf að passa. Sætið er brotið saman til að það taki minna pláss, sem mér finnst frábært! Aftur á móti er ekki hægt að gera þetta í hvaða stillingu sem er, stundum þarf að smella sætinu af, loka því og setja það aftur á.  Sé kerrusætið á neðri festingum tekur kerran mun meira pláss heldur en ef þetta er tekið af þegar henni er pakkað saman. Að setja kerruna saman er lítið mál, losa eina klemmu og hún opnast.

 

Kerran, sæti og vagnstykki
Kerrugrindin var stærri en ég gerði ráð fyrir þegar ég fór að setja hana í bílinn og tekur meira pláss en ég vonaði, en þó gæti ég minnkað umfangið með því að taka af dekkin. Ég er nefninlega með þrjú lítil börn og þrjá fullorðna á heimilinu með 7 manna bíl og þegar annað skott-sætið er í notkun er ekki mikið pláss eftir fyrir kerruna. Ég væri til í að geta flatpakkað vagnstykkinu með einföldum hætti til að setja í bílinn en það er ekki þannig.

 

 

Í vagnstykkinu er ekki gert ráð fyrir beisli og finnst mér það stór galli. Fólk hefur verið að kaupa lykkjur og festa í botninn og ætla ég að gera það. Aðrir hafa fest beisli í festistykkið sem festir burðarrúmið á kerruna en mér finnst það ekki henta, auk þess sem ég vil ekki að það sjáist. Svuntan er mjög lítil, en hún nær ekkert upp við skerminn og gapir aðeins við festingarnar og finnst mér það galli. Auk þess festist hún á á mjög furðulegan hátt og ég skil bara ekki hvað hönnuðirnir voru að spá. Það eru franskir rennilásar sem eru í góðu lagi en síðan festist hún með smellum sem fara inn fyrri efnið við skerminn. Það er erfitt að smella því og ekki aðgengilegt, ég sleppi því yfirleitt að smella öðrum megin. Skermurinn ætti að ná framar þegar hann er á vagnstykkinu þegar ég set hann í fremstu stellingu smellur hann alltaf aðeins til baka, það virðist vera einhver spenna á honum sem orsakar þetta.

 

 

Mér finnst fjöðrunin mjög fín og kom hún mér á óvart, en það er fjöðrun á bæði fram- og aftur dekkjum. Lítið mál er að keyra í möl, þó það sé ekki sambærilegt við Emmaljunga/Simo og sambærilega vagna með ofur fjöðrun.

Bremsan er handbremsa sem bæði er hægt að nota til að hægja á sér niður brekkur og einnig til að læsa. Ég var lengi að ná þessu og fannst hún alltaf fyrir mér, sérstaklega því ég er með tösku á stýrinu. Þetta er hætt að trufla mig núna en ég væri alveg til í fótbremsu samt.

Munurinn á Deluxe vagnstykki og því sem kemur með kerrunni er talsverður. Deluxe er stærra, það er betri skermur og það er betur einangrað. Svuntan nær upp á skerminn og það er allt veglegra. Aðalkosturinn finnst mér samt að stykkið sem smellur á grindina er neðan á, en það er að ofan á hinu, þetta veldur því að Deluxe situr mun ofar og því þægilegra aðgengi um vagninn, en hitt er helst til of neðarlega.

Ég nota kýs að nota flugnanet í stað teppis til að skapa aukna einangrun og hlífa barninu fyrir vindum og birtu. Eins og áður sagði finnst mér netið sem tilheyrir ekki nógu gott. Ég nota einnig regnplast einungis þegar rignir, en mér finnst ekki góð þau sem eru alveg plöst og nota því alltaf „universal“ skandinavísk plöst og það sama á allar kerrur/vagna heimilisins.

Kerrustykkið finnst mér mjög gott og þægilegt í notkun.  Hægt er að hafa skerminn í tveimur hæðarstillingum en ég hefði viljað hafa í hærri stillingu en þá get ég ekki haft ungbarnastólinn fyrir ofan og kerru fyrir neðan framvísandi (of þröngt fyrir barnið að hafa bakvísandi). Ég er því með neðri stillinguna. Skermurinn er mjög góður, nær langt niður. Sætið hallast mjög vel en það legst ekki flatt heldur er í svokallaðri sitjandi stellingu, sama þó því sé hallað. Börnin mín hafa alltaf sofið vel í slíkri stellingu. Á skerminum er gluggi til að hægt sé að sjá barnið. Beltið er gott 5 punkta en hægt er að nota það sem 3 punkta líka. Sætið er með vasa aftan á sem mér finnst frábært og geymi ég net og regnplast þar t.d.

 

Dekkin á kerrunni eru fín einhverskonar plast dekk sem ekki þarf að pumpa í. Hafa virkað vel á möl en ég hef ekki enn prófað snjó. Hægt er að hækka og lækka handfang með einföldum hætti, en það er takki sem ýtt er á við stýrið og það togað út eða sett inn.

Farangurskarfan undir kerrunni er frábær! Stór og aðgengið er mjög gott með teygjuefni bæði að framan og aftan. Þegar vagninn er í neðri stillingu er hægt að koma smá dóti undir hann en í körfuna jafnframt hægt að koma stórri skiptitösku og fara aðeins í búðina. Fyrir manneskju eins og mig sem ferðast alltaf með búslóðina er þetta frábært!

 

 

Aukahlutir
Hægt er að fá talsvert af aukahlutum fyrir kerruna, net, regnplöst, glasahaldara fyrir foreldri og bakka fyrir börnin auk þess sem hægt er að fá öryggisslá á kerrusæti. Mesta snilldin er samt innkaupapokinn, en hann er hægt að festa á þrjá vegu á kerruna. Á festingarnar að ofan, aukafestingarnar að neðan eða þegar kerran er í notkun fyrir  btvö börn, þá á grindina fyrir neðan stýri.

Notkun
Baby Jogger City Select Lux er í notkun alla daga hjá okkur í mismunandi útfærslun. Sá tveggja ára er mjög ánægður með hana og kvartar mikið ef „stóllinn“ hans er ekki með. Sú fimm ára hefur líka setið í henni og fer bara ágætlega um hana, þrátt fyrir að hún sé frekar löng. Þau hafa meira að segja öll 3 verið í kerrunni í stutta stund, en það er sport að vera í farangursrýminu, þó það sé ekki samþykkt af foreldrunum ???? Kerran virðist alveg bera það rétt eins og þegar systkinapallur er á en ég er með systkinapall sem ég get smellt af og á, en með vagnstykkinu er lítið pláss fyrir barnið á pallinum og alls ekki þegar ég er með töskuna á stýrinu. Við höfum því lítið sem ekkert notað pallinn.

 

 

Þegar vagnstykkið er fyrir neðan er kerran frekar löng og ég þarf oft smástund að átta mig á því, en í öðrum stillingum finn ég ekki eins fyrri lengdinni. Á heildina litið er ég gríðarlega ánægð með kerruna og sé ekki eftir þessum kaupum, þó hún sé ekki fullkomin að mínu mati.

 

Lykilpunktar

  • Heildarþyngd: 12,7-15,4  kg
  • Hæð: 42.5 cm til 107,9 cm
  • Burðargeta: 20kg á hvort sæti
  • Minna vagnstykkið: 69 cm langt (innanmál)

 

Kostir

  • Pakkast vel saman mv. aðrar kerrur í þessum flokki
  • Gott að keyra og fín fjöðrun
  • Mjög auðvelt að skipta á milli sæti/vagnstykki/bílstóll og 1 eða 2 börn
  • Mjög stór farangurskarfa
  • Slatti til af aukahlutum, glasahaldari, innkaupakarfa, bakkar á sætin, bekkjarsæti ofl.
  • Bílstólafestingar fyrir margar gerðir bílstóla
  • Yfir 20 möguleikar á uppröðun

 

Gallar

  • Grindin frekar þung
  • Burðarrúmið er mikið opið, erfitt að loka svuntunni á því og skermurinn kemst ekki í fremstu stöðu
  • Mjög þröngt um neðra barn ef það á að snúa að foreldri ef það er bílstóll eða vagn fyrir ofan
  • Lítil svunta á burðarrúmi og engin á kerrustykki
  • Engin endurskinsmerki

 

Samantekt: Baby Jogger City Select Lux er frábær kerra og kemst ansi nálægt því að vera hin fullkomna systkinakerra. Hún leggst vel saman, er með miklu farangursplássi og góðri burðargetu. Mikið úrval aukahluta fáanlegt og býr yfir mjög góðum aksturseiginleikum þrátt fyrir að vera frekar löng og þung þegar tvö börn eru í henni. Sterk, einföld, þægileg fjölnota kerra fyrir eitt eða tvö börn í einu. Frábært að geta fellt kerrusætin alveg saman og hefði verið fullkomið að geta gert það sama við burðarrúmið með einföldum hætti.