Ragnheiður Lára Guðrúnardóttir

Umsögn: Baby Jogger City Elite

16. október, 2018 | Kerrur

Baby jogger fyrirtækið var stofnað árið 1984. Fyrstu kerrurnar voru hannaðar með það að markmiði að hægt væri að skokka með þær. Síðasta áratug hafa áherslurnar breyst og býður fyrirtækið nú upp á þó nokkrar tegundir af kerrum sem henta ólíkum þörfum foreldra. Líkt og upphafsmarkmið fyrirtækisins var eiga kerrurnar þó það enn sameiginlegt að það er ótrúlega gott að keyra þær.

Ég hafði hvorki heyrt né tekið eitthvað sérstaklega eftir Baby Jogger kerrum þegar ég var í kerruleit með Bjart lítinn sumarið 2016. Ég hafði nýlega losað mig við Emmaljunga vagninn og hafði prófað Bugaboo Cameleon gamla týpu sem mér líkaði ekki nægjanlega vel við. Við vorum á leiðinni til Spánar og mig langaði í góða kerru fyrir Bjart að hvíla sig í. Á bland.is rakst ég á kerru sem virtist af myndum að dæma vera með fótskemil, baki sem hægt var leggja niður og ágætis skermi. Ég fór og skoðaði hana og þar varð ást við fyrstu sýn. Ég og Baby Jogger City Elite, kerran sem ég hafði alltaf þráð <3

Hún kostaði mig 30.000 kall og hef ekki enn hugmynd hvaða árgerð hún er. Held 2013. Ég þrammaði með hana úr bílskúr á Háaleitisbraut út í bíl og ekki var það flókið að leggja hana saman og skella í skottið. Í sætinu á kerrunni liggur band sem á stendur „pull to fold“ og flóknara er það ekki. Maður einfaldlega tosar í bandið og kerran smellur sama. Bandið verður þá einskonar handfang þannig að hægt er að halda á kerrrunni með annarri hendi sem hentar vel ef maður er með barnið í hinni. Maðurinn minn var sérstaklega glaður með þennan fídus og amman einnig. Ég hef lent í því að þurfa að horfa á youtube myndbönd úti á plani með öskrandi barn í bílstól og blýsperrta kerru við skottið sem engin leið er að leggja saman.

 

 

En það er einmitt það sem ég elska einna mest við þessa kerru (já það er hægt að elska kerru!), hún er svo ótrúlega einföld og notendavæn. Á henni er þægileg handbremsa sem á stendur „brake“ svo hlutverk hennar fari nú alls ekki á milli mála. Auðvelt er að taka dekkin af, einn takki og þau smellast af sem er mjög þægilegt þegar koma þarf kerrunni í lítið pláss á fljótlegan hátt. Kerran er í stærra lagi en verður merkilega lítil um sig þegar dekkin eru komin af og rúmast því vel í litlu rými. Auðvelt er að læsa fremra dekkinu með einum takka. Á skerminum eru flipar yfir glugga og loftgötum og er hægt að festa þá með seglum sem eru inni í efninu.

 

Ég hugsa að ástæða vinsælda þessarar kerru sé klárlega sætið sem hægt er að halla alveg í liggjandi stöðu. Bakið er fært upp og niður með bandi þannig að hægt er að ráða stöðu þess í stað þess að kerran bjóði aðeins upp á ákveðna hallamöguleika líkt og á sumum kerrum. Fótskemillinn eykur þægindi barnsins í hvíld og er hann færður upp eða niður eins og hentar. Á sætinu er fimm punkta belti sem auðvelt er að hækka og lækka með því að færa til böndin. Þeim er krækt í lykkjur sem eru í fimm hæðastillingum.  Skermurinn, maður minn! Hann er sá besti sem ég hef séð á kerru! Hann er stór, þéttur, stífur en samt lipur!  Með loftgötum, glugga og fer vel niður sem eykur þægindi barnsins og vera það fyrir sól, roki og rigningu.

 

 

Hægt er að hæðastilla handfangið og þrír „foreldravasar“ eru við handfangið þar sem gott er að geyma flöskur, snarl og slíkt. Stór vasi er svo aftaná sætinu úr neti sem býður upp á allskyns möguleika. Hólfið sjálft undir kerrunni er úr mjúku teygjuefni, ekkert sérstaklega stórt en tekur ótrúlega mikið og hægt er að troða í það frá öllum hliðum. Það kom sé mjög vel á Spáni þar sem við geymdum þar yfirleitt sundföt og handklæði allra fjölskyldumeðlimanna.

Nú hef ég prófað nokkrar kerrur og hefur engin þeirra staðist samanburðinn við Baby Jogger City Elite í keyrslu. Ekki einu sinni hin hollenska Bugaboo Buffalo (á eftir að prófa Fox!). Það er fáránlega gott að keyra þessa kerru. Hún lætur vel að stjórn og það er hægt að snúa henni í hring með litla putta, ég sver það! Dekkin eru nokkuð stór eða 12 tommur og virka eins og loftdekk en eru í raun froðufyllt. Að mínu mati virka þau mjög vel og hef ég farið með kerruna í hinar í ýmsar torfærur,  snjó og strönd og hún hefur ráðið við það allt saman eins og ekkert sé. Það stoppar ekkert þessa elsku, henni eru allir vegi færir!

Það fór afar vel um Bjart okkar í kerrunni á Spáni, hægt er að lyfta flipa af baki sætisins þegar það er ekki í uppréttri stöðu og er þá net þess í stað. Þannig gátum við loftað vel um kerruna þegar Bjartur svaf en samt sem áður skýlt hann vel fyrir sólinni.

 

Bjartur er heldur stórt þriggja ára barn og er bæði að hæð og þyngd á við sex ára barn (rúm tuttugu kíló!!) og hann á nóg eftir í City Elite kerrunni en þyngdarviðmið kerrunnar er 34 kíló. Níu ára bróðir hans gat jafnvel hvílt sig aðeins í kerrunni eftir hlaup á ströndinni.

Ég var á milli vagna núna með Mána nokkurra mánaða og greip þá í City Elite kerruna á meðan ég var að finna mér hentugan vagn. Það fór vel um Mána í góðum kerrupoka og svo notaði ég cover frá www.coveredgoods.com til að þétta kerruna betur. Hægt er að nota kerruna sem vagn með því að festa á hana vagnstykki en þá þarf helst að taka áklæðið af kerrunni af. Það hentaði okkur ekki þar sem Bjartur notar kerruna og vesen að vera að smella áklæðinu af og á. Þá er einnig hægt að kaupa bílstólafestingar á kerruna og eru til festingar fyrir þó nokkrar týpur af bílstólum. Þó svo að bílstólinn frá Baby jogger sé notaður þarf samt sem áður að nota sérstakar festingar sem millistykki.

Gallar: Helstu gallar City Elite kerrunnar eru að mínu mati að ekki er hægt að snúa barninu að sér og að sæti hennar er aldrei í alveg uppréttri stöðu. Sum börn vilja ekki hálf liggja í kerrunni heldur sitja bein í baki og hentar hún þeim ef til vill ekki nægjanlega vel. Það hefur samt sem áður alltaf farið mjög vel um Bjart í kerrunni en hann er líka frekar rólegt barn. Þá hentar kerran ekkert sérstaklega vel í notkun fyrir tvö börn, í fyrsta lagi vegna þess að ekki er hægt að svissa vagnparti og kerrustykki af og á á einfaldan hátt, í öðru lagi fer ekkert sérstaklega vel um barn á systkinapalli á kerrunni þar sem það þarf nánast að halla sér aftur þegar það stendur á pallinum.

Þá hafa sumir gagnrýnt kerruna fyrir að vera óþétt eða of opin. Mér hefur reyndar þótt hún nokkuð kósí og farið með barn í göngu í snjókomu og vindi. Í svona kerru er mikilvægt að vera með góðan kerrupoka að vetri og nýta sér regnplastið ef veðrið er slæmt. Ég hef heyrt að einhverjar hafi fengið sér kerrusvuntu hjá Dórukoti sem er sérstaklega sniðin að City Elite kerrunni (getur verið vitleysa!) og finnst mér sjálfri það spennandi kostur.

Þá er kerran í þyngri kantinum eða rúm 12 kíló svo hún hentar ef til vill ekki sem „skottkerra.“ Kerran er einnig nokkuð breið um sig eða langt á milli aftari dekkja svo hún kemst ekki auðveldlega á milli í verslunum.

 

Samantekt:  Ef þú ætlar að eiga eina kerru myndi ég mæla með þessari. Hún tékkar í ansi mörg box á draumakerrunni en er þó ekki fullkomin. City Elite kerran hentar frá fæðingu þar til að barnið er orðið það stórt að það þverneitar að sitja í kerru. Hún er vegleg og þægileg í notkun. Okkar kerra hefur farið a.m.k. tvisvar í flug og þá ekki í tösku. Henni hefur verið dröslað hingað og þangað, skellt í skott og tosuð upp tröppur og það er engin þreyta komin í hana.  Við elskum hana hreinlega.

Fleiri áhugaverðar Baby Jogger sem mig langar til að prófa:

Mini Gt 

Baby Jogger City Select

Baby Jogger City Premire

Baby Jogger Summit

Baby Jogger Mini GT Double

Sérstaklega spennt að prófa þessar tvær:

Baby Jogger City Tour Lux

Baby Jogger City Mini Zip