Ragnheiður Lára Guðrúnardóttir

Kerrutips: Bugaboo

24. október, 2018 | Kerrur

 

 

 

Áður en ég dembi fram Bugaboo umsögnum langar mig að fjalla aðeins almennt um merkið og upplifun mína af því.

Fyrsta Bugaboo kerran hönnuð árið 1994 sem lokaverkefni Hollendingsins Max Barenbrug. Árið 1999 kom svo fyrsta Bugaboo kerran á markað Bugaboo Classic. Varan hefur verið í stöðugri þróun og notið gífurlegrar vinsælda síðasta áratuginn. Hollywood stórstjörnunar hafa margar hverjar valið sér Bugaboo vagn fyrir ungviði sín og ætlaði allt um koll að keyra fyrir nokkrum árum þegar Kate Middelton valdi sér Bugaboo vagn fyrir afkvæmi sitt í stað þess að notast við breskt merki s.s. Icandy. Skammastu þín Kate!

Ég hafði verið í ástar/haturs sambandi við Bugaboo í nokkur ár. Mér fannst kerrurnar fallegar en var búin að ákveða að hér væri um að ræða eitthvað hype sem ég ætlaði mér svo sannarlega ekki að taka þátt í. Mér fannst þær vissulega fallegar, svo fallegar að í kerruglápi erlendis gat ég greint Bugaoo kerrur frá hinum kerrunum í órafjarlægð. Ég prófaði að fá mér eina árið 2016, gamla Bugaboo Cameleon (2008 árg) en fýlaði hana alls ekki. Burðarrúmið var heldur lítið á henni og sætið einnig. Þá var ekki kominn þessi stóri skermur sem einkennir nú kerruna. Annars held ég að Cameleon henti ef til vill ekki best íslenskum aðstæðum, burðarrúmið er tiltölulega lítið og kerrustykkið einnig en hún er t.d. mjög vinsæl í Frakklandi og Ítalíu og hentar ef til vill betur sem stórborgarkerra.

Til að svara þörfum foreldra sem vildu stærri og íburðarmeiri kerru framleiddi Bugaboo Buffalo kerruna sem framleidd var fyrst árið 2013. Var henni ætlað að ráða betur við gróft undirlag og stærri börn.  Það má með sanni segja að Buffalo kerran hafi sigrað heiminn, fólk hreinlega elskaði þessa hollensku snilld og þá sérstaklega fóru vinsældir kerrunnar að dafna á norðurlöndunum s.s. á Íslandi. Buffalo kerran er líka æðisleg, vagnstykkið er rúmgott og hún kemst allt, fjandinn hafi það*

 

 

Ég keypti mér notaða Buffalo kerru fyrir nokkru og hef verið að prófa hana í ýmsum aðstæðum s.s. torfærustígum og á strönd. Með kaupum hennar ætlaði ég aðallega að sannreyna það fyrir sjálfri mér að Bugaboo væri bara ekki málið en algjörlega mistókst það! Ég elska hana þrátt fyrir að vera ekki fullkomlega sátt við sætið sem ekki er hægt að leggja í alveg lárétta stöðu.

 

 

Ég var sérstaklega spennt að prófa Bugaboo vegna systkinapallsins. Hægt er að fá universal systkinapalla á flestar kerrur en er misjafnt hversu vel þeir passa á kerruna. Mér fannst sjálfri heillandi að kaupa pall sem sérstaklega væri hannaður fyrir þessa ákveðnu kerru. Það er skemmst frá því að segja að við erum ótrúlega ánægð með pallinn og er hann í daglegri notkun. Bjartur elskar að sitja á sætinu og spjalla við bróður sinn. Pallurinn er ekki alveg fyrir miðju á kerrunni þannig að pláss er fyrir gangandi fætur við hliðina á honum. Auðvelt er að taka sætið og dekkið af með því að toga í hvíta takkann og ýta pallinum þá upp þegar hann er ekki í notkun. Þá er einnig mjög auðvelt að setja pallinn af og á en hann er losaður með því að ýta á tvo takka. Ég fer oft með Bjart á leikskólann á pallinum og held svo áfram í morgungöngu og er því pallurinn nánast alltaf á kerrunni. Dekkið og sætið set ég í körfuna undir kerrunni sem rúmar frekar mikið.

 

 

 

 

Á meðan vinsældi Buffalo kerrunnar héldu áfram að stigmagnast sátu hollensku verkfræðisnillingarnir heldur betur ekki auðum höndum og héldu áfram að betrumbæta vöruna sína og hönnuðu Bugaboo Fox. Hjálpi mér allir heilagir, þessi kerra er eitthvað sem tilheyrir ekki þessum heimi! Með tilkomu Fox var hætt að framleiða Buffalo kerruna enda er Fox allt sem hún var og meira til. Umsögn um Fox er væntanleg á næstu dögum.

*Ég biðst afsökunar á því að blóta á þessu barnakerrubloggi, mamma mín er búin að biðja um að gera það ekki en þar sem ég er 32 ára og hún ræður ekki yfir mér lengur ætla ég bara samt að gera það!