Við fjölskyldan fórum nú á dögunum til Spánar og snérist undirbúningurinn af minni hálfu fyrst og fremst um hvaða kerrur ætti að taka með fyrir börnin. Nei ég hafði engar áhyggjur af sólbruna, vökvaskorti, veikindum og moskítóflugum. Allar mínar vangaveltur snéru alfarið að kerrumálum! Gjörsamlega snarbilað, ég geri mér fullkomlega grein fyrir því.
Sjálfri þykir mér betra að vera með veglega kerru þegar farið er til sólarlanda. Til að auka þægindi allra, foreldra og barna er gott að vera með þá kerru sem barnið er vant að nota og foreldrar kunna á. Þá þykir mér mikilvægt að kerran sé sterk og góður hvíldarstaður fyrir barnið. Við notuðumst við létta regnhlífakerru þegar við fórum til Barcelona með Bjart tveggja ára. Eftir á að hyggja hefði ég frekar viljað hafa City Elite kerruna svo hann hefði hvílst betur en hann var í kerrunni meira og minna allan daginn á meðan við þrömmuðum um borgina.
Bjartur þriggja ára og Máni fjögurra mánaða nota báðir kerru/vagn en hafa afar ólíkar þarfir hvað það varðar. Bjartur er enn að leggja sig á daginn og með gönguhraða á við snigil svo hann þarf að hafa kerru (eða öllu heldur við fyrir hann svo ég missi ekki vitið á að bíða eftir honum!) og Máni þarf að sjálfsögðu kerru eða vagn því hann eyðir u.þ.b. 80% af tímanum sínum liggjandi eða sofandi í einum slíkum. Við skoðuðum það að taka með systkinakerru sem eigum (bumbleride indie twin) og er góð að því leytinu til að hægt er að halla hvoru sætisbaki fyrir sig alveg aftur sem og að hækka og lækka fótskemil. Hins vegar leggst kerran ótúlega illa saman og er orðin frekar léleg.
Við enduðum á því að taka með City Elite kerruna fyrir Bjart og Bugaboo Buffalo vagninn fyrir Mána. Við tókum einnig systkinapallinn á Bugaboo vagninn með. Ég ákvað að hafa vagnstykkið á Bugaboo vagninum en ekki kerrustykkið svo Máni myndi hvílast sem best í vagninum og sá svo sannarlega ekki eftir því. Bjartur var mikið í City Elite kerrunni og skreið stundum upp í hana sjálfur á daginn til að taka smá lúr. Hann rúmast enn vel í kerrunni þrátt fyrir að vera stórt barn.
Við drösluðum kerrunum báðum um allt og var ég ótrúlega sátt með þá ákvörðun að hafa tekið City Elite kerruna með fyrir Bjart í stað léttrar regnhlífakerru þar sem auðveldara er að leggja hana saman og svo kemst hún allt, sand, malarstíga, og steinlagðar götur o.s.frv. Við fórum meðal annars með báðar kerrurnar upp í listamannabæinn Altea þar sem göturnar eru lagðar grófum steinum og fjölmörgum tröppum. Þá kom sér vel að vera með tvær kerrur en ekki eina systkinakerru þar sem við fórum stundum á röltið með hvort barn fyrir sig.
Ég þorði ekki öðru en að setja Bugaboo vagninn í kerrutösku fyrir flugferðina þar sem um heldur dýran vagn er að ræða. Hann er einnig í tveimur pörtum, grindin og svo vagnstykkið sjálft svo betra var að hafa þetta allt á sama stað. Ég kom systkinapallinum með í töskunni sem er heldur stór!
Baby Jogger kerruna tókum við hins vegar með inn á flugvöllinn og upp að vélinni sjálfri. Máni svaf í henni á vellinum og saknaði ég þess að hafa ekki systkinapall fyrir Bjart. Á leiðinni í vélina vorum við með fullar hendur af handfarangri og börnum og kom þá sér vel hve auðvelt er að leggja City Elite kerruna saman og gat ég gert það með einu handtaki með Mána í burðarpoka framan á mér, með bakpoka á bakinu og tvo poka á handleggnum.
Ég er alveg viss um að góð ferð hafi orðið enn betri með réttum kerrum fyrir börnin (eða tel mér a.m.k. trú um það :))!