Ég hef leitað logandi ljósi af hinni fullkomnu kerru í snatt og skott. Skottkerra er kerra sem er lítil, létt og nett (passar vel í skottið!) og uppfyllir samt hinar helstu þægindaþarfir barnsins. Ég hafði talið mér trú um það að Silver Cross reflex væri hin fullkomna snattkerra. Hún er í raun svokölluð regnhlífakerra sem pakkast auðveldlega saman og er tilvalin í ferðalög og Smáralindastúss. Ég var hins vegar ekki nægjanlega sátt við Reflex kerruna í þetta hlutverk (ætla að fjalla um hana síðar) og leita því enn að hinni einu sönnu.
Baby Jogger kerrunar hafa skorað hátt á draumakerrulistanum þá sérstaklega vegna einfaldleika þeirra. Ég var því virkilega spennt að skoða nýju kerruna Baby Jogger City Tour Lux. En hún er létt kerra eða aðeins rétt tæp 9 kíló (City Elite er 12 kg og Bugaboo Fox 10 kg!) og virðist pakkast auðveldlega saman. Kerran leggst saman í lítinn „böggul“ sem á eru bönd svo hægt sé að bera hana á bakinu og einnig fylgir með taska fyrir kerruna.
Það sem heillaði mig hvað mest við City Tour Lux er að hægt er að snúa sætinu í báðar áttir sem uppfyllir þarfir foreldra yngstu barnanna. Hægt er að leggja sætisbakið í alveg lárétta stöðu og færa upp og niður fótskemil. Þá þolir kerra um 22 kíló eða 4 – 6 ára barn og hægt er að nota systkinapall á kerruna svo hún væri kjörin fyrir mína tvo drengi. Hægt er að skipta út kerrustykkinu fyrir vagnstykki og bílstól. Kerran fellur þannig bæði í flokkinn Fjölnota ferðakerrur og skottkerrur sem er nokkuð vel gert.
Eftir þó nokkra skoðun á þessari kerru taldi ég að hér væri hin fullkomna kerra mætt. Við nánari skoðun og eftir að hafa lesið umsagnir erlendis virðist því miður vera galli á gjöf Njarðar. Hið einfalda „folding system“ sem er á mörgum baby jogger kerrunum virðist ekki vera hér og tekur það í raun þrjú skref að leggja kerruna saman. Það er samt sem áður hægt að gera með einni hendi sem hentar vel ef maður heldur á barninu í hinni. Skermurinn er ágætur en hefði mátt vera aðeins stærri þar sem hann færist með baki kerrunnar. Þannig að ef kerran er í hallandi stöðu nær skermurinn styttra og býður því ekki upp á sama skjól og á City Elite kerrunni t.d,. Í umsögnum erlendis er helsta kvörtunarefni fólks skermurinn sem virðist vera úr það mjúku efni að hann fellur til baka við minnsta mótlæti. Þá er ekki hægt að hæðastilla handfangið sem hentar ef til vill ekki öllum.
Það er algjörlega á stefnuskránni að prufukeyra þessa kerru og gefa í kjölfarið ítarlegri umsögn. Þá eru spennandi nýjungar væntanlegar frá Baby Jogger s.s. City Tour 2 kerran sem virðist við fyrstu sýn komast ansi nálægt drauma snattkerrunni. Meira um það síðar.