Ragnheiður Lára Guðrúnardóttir

Umsögn: Britax Smile 2

14. mars, 2019 | Kerrur

Ein fyrsta kerran sem fékk mig til að falla í stafi var kerran BRIO Smile. Árið var 2009 og verslunin Fífa, ég slefaði á hana og íhugaði það að grenja út fyrirfram greiddan arf svo ég gæti fjárfest í þessari gersemi. En ég var námsmaður, borgaði 36.000 krónur í mánaðarleigu og mig minnir að hún hafi kostað ríflega 50.000 krónur. Gat ekki réttlæt þau kaup fyrir mér þá!

Þetta var í fyrsta skipti sem ég sá kerru með snúningsdekkjum á fjórum hjólum og mér fannst þvílíkt afbragð að keyra hana um verslunina. Sem ég gerði ansi oft, ef mig langaði virkilega að tríta mig eftir langa lærdómssetu fór ég iðulega í Fífu og fékk aðeins að grípa í nokkrar kerrur og þá sérstaklega Smile kerruna. Hún varð því miður aldrei mín en ég hef haft augastað á henni síðan. Nú fæ ég að fjalla um hana hér sem er afar skemmtilegt.

Brio var svo keypt af fyrirtækinu Britax sem var nú ekki beint nýtt af nálinni, stofnað 1938. Því breyttust Brio kerrur í Britax og urðu í kjölfarið bílstólavænar þar sem Britax var þegar orðið yfirgripsmikið merki í barnabílstólaiðnaðinum.

Með yfirráðum Britax á Brio kom hið svokallaða “click on, click off” system fyrir kerru, vagnstykki og bílstól (ef hér er um einhverja sögufölsun að ræða þá vinsamlegast leiðréttið mig – ég nenni ómögulega að vísa í ritreyndar heimildir við gerð þessa umsagna). En ykkur eru örugglega alveg skítsama um þessa forsögu og viljið bara vita meira um þessa kerru sem verður til umfjöllunar hér, Britax Smile 2.

Eitt vissi ég þó líka um Smile 2 og það er að þeir sem eiga hana, elska hana. Þá meina ég ELSKA HANA og geta ekki hætt að tala um hana. Það hlýtur að segja ansi margt um þessa elsku og legg ég til að þið heitu aðdáendur og eigendur Britax Smile stofnið einhverskonar cult. Ég sver það hvað þið elskið kerruna ykkar, þetta er bara kerra sko, ekkert til að missa sig yfir… (ykkur er samt öllum boðið í hátíðlegt brúðkaup okkar Priam, hlakka til að sjá ykkur. Þemað verður þýskt, vinsamlegast hafið klæðnað í samræmi við það).

 

Reynsluprófun:

Elsku rótgróna verslunin Fífa lánaði mér Smile 2 kerru, burðarrúm og svuntu. Ég fékk hana í lán í nokkra daga og var að skila henni, sem var virkilega erfitt aðskilnaðarferli. Er nú á stigi þrjú í sorgarferlinu, “úrvinnsla tilfinninga” svo þetta er allt að koma.

Ég fór í mjög langan göngutúr með Mána í kerrunni, hann bæði sat í henni og svaf. Grenjaði svolítið og ég fékk vægt kvíðkast yfir því að nú væri hann kominn á eitthvað mótþróaskeið við að sitja í kerru en svo var ekki. Vinkona mín á nefnilega barn sem vill ekki sitja í kerru. Hversu HRÆÐILEGT er það. Ég kippti þá kerrunni með mér á snatt og fór meðal annars með hana í kringluna. Við prófuðum svuntuna og vagnstykkið lítillega. Þurftum ekkert að grípa í regnplastið þar sem veðrið hreinlega lék við okkur þetta reynslutímabil.

Lykiltölur:

  • stærðir:
    • Sæti: L90cm*B32cm
    • Vagnstykki:
      • Innra mál;76*35*22 cm
      • Ytra mál; 84*40*22 cm
    • Samanbrotin
      • án hjóla: 105 x 57 x100 cm
      • með hjólum: 34 x 57 x 85 cm
    • Milli hjóla: B57cm
    • Handfang: 83 – 111 cm
  • Þyngdir:
    • Stell: 8,9 kg
    • Sæti: 4,1 kg
    • Vagnstykki: 4
  • Þyngdarviðmið:
    • Kerra: 17 kg
    • Vagnstykki: 9 kg
  • Annað:
    • Brýst saman í tvennu lagi.
    • Loftdekk
    • “Click and go” kerfi fyrir bílstól, kerru og vagnstykki.

 

Sæti

Sætið á Britax Smile 2 er með ágætri bólstrun og þremur hæða stillingum. Sætið er fært til með takka aftan á sætisbakinu eða stöng sem er aðeins neðar (svipuð stilling og á eldri kerrum) og var þægilegt í notkun. Sætið leggst flatt í 180 gráður og svaf Máni afar vel í þeirri stöðu. Þá er alveg upprétt sitjandi staða afar góð og studdi vel við lítinn sitjandi kropp. Færanleg öryggisslá er á kerrunni sem Mána þótti þægilegt að halda í. Mér fannst hún virka heldur nálægt sætinu svo ég veit ekki hversu gott rými væri fyrir eldra barn og kerrupoka en ef það væri of þröngt er auðvelt að kippa henni af. Þá fer ól fyrir fætur yfir öryggisslánna sem kemur í veg fyrir að barnið renni úr kerrunni og sitji betur.

Hreyfanlegur fótskemill er á sætinu sem auðvelt er að eiga við. Hann er færður upp og niður með tökkum sitt hvoru megin á skemlinum. Fimm punkta belti er á kerrusætinu með fínum púðum yfir axlir. Ólum sem fara þvert yfir barn og yfir miðju þess er smellt saman sem gerir það einfaldra að þræða kerrupoka í sætið. Tvær hæðastillingar eru á ólum og þræða þarf ólar úr sætinu til að breyta hæð þeirra. Kerrusætið er frekar hátt uppi sem hentar vel t.d. þegar barnið situr við borð og til að vera í augnsambandi við foreldri. Auðvelt er að taka kerrusætið af með því að halda samtímis inn tökkum sitt hvoru megin við miðju þess. Þá getur sætið bæði verið fram- og bakvísandi.

 

 

Skermurinn á Britax Smile 2 er algjör lífsins ljómandi snilld. Hann fer klárlega í topp fimm listann yfir bestu skermana (með Bugaboo, Baby Jogger City Elite, Cybex Balios S og örugglega fleiri!). Þessi töfra skermur er stækkanlegur með rennilás og við það fer hann vægast sagt afar vel yfir kerruna. Þá er hann úr ágætlega þykku efni og heldur sér vel í þeirri stöðu sem hann er settur í. Gjægugat er á skerminum sem opnað er með flipa.

Svuntuóðir foreldrar geta heldur betur glaðst yfir Britax Smile 2 því henni fylgir svunta! Verð samt að segja að hún hafi verið örlítil vonbrigði í samanburði við svuntuna á NXT 90 F en hey! Svunta engu að síður. Henni er smellt á kerruna og skapar góða einangrun fyrir vind, regni og kulda (ég er að tengja við allt þetta þrennt!).

 

Vagnstykki

Vagnstykkið á Britax Smile 2 er selt sér og fæst í nokkrum litum og er ætlað börnum upp í sex mánaða með níu kílóa þyngarmörkum. Vagnstykkið kemur fullbúið með svuntu og skerm. Á skerminum er handfang svo þægilegt er að bera vagnstykkið.

 

Skermurinn sjálfur er ekki stækkanlegur en rennilásinn á honum opnar fyrir loftgöt. Skyggni er á skerminum sem hægt er að leggja inn í skerminn eða toga út. Svuntan festist á stykkinu með frönskum rennilás og einangrar ágætlega. Það hefði þó verið frábært að sjá skerminn aðeins stærri svona í samaburði við skerminn á kerrusætinu. Dýnan er bæði þykk og góð og áklæðið að innan afar mjúkt. Auðvelt er að taka áklæði af til að þvo.  Lykkjur fyrir beisli er í vagnstykkinu og fínasta regnplast fylgir með því.

 

Stell:

Stellið á Britax Smile 2 er tiltölulega nett og létt og gerir kerruna afar lipra í keyrslu. Handfangið er hæðastillanlegt með tökkum sitthvoru megin á því. Stærðarinnar burðarkarfa er á stellinu, líklega ein sú stæðsta sem ég hef séð á kerru! Hún tæki eflaust 3 – 4 bónus poka með léttum leik (eða eitt barn, sparar manni systkinakerru!!;)). Góð fjöðrun er á öllum hjólum og að auki eru loftdekk á kerrunni sem skapa ennþá betri dempun. Loftdekk eru orðin nokkuð sjaldgæf á kerrum í dag þar sem froðufyllt dekk virðast að mestu hafa tekið við keflinu.  Loftdekk eru léttari en froðufyllt dekk og dúa betur í akstri. Hins vegar þarf að passa að jafnt loft sé í þeim, annars getur kerran orðið hjólaskökk.

 

Bremsan á Britax Smile 2 er vægast sagt frábær. Hún er “click on, click off” bremsa, mjög lipur í notkun og sýnir rauðan lit þegar bremsan er á en grænan þegar hún er tekin af. Ég held hreinlega að þessi bremsa sé uppáhalds bremsan mín af þeim kerrum sem ég hef skoðað og prófað.

Þegar kerran er lögð saman þarf að taka kerrusætið eða vagnstykkið af með því að taka í takka sitthvoru megin á stykkinu. Því næst er tekið í plaststykki sitt hvoru megin á stellinu sjálfu og það fært upp. Kerran leggst þá saman og læsir sér. Stellið stendur sjálft samanbrotið sem er afar góður kostur að mínu mati, þægilegt að geyma það og eiga við það þannig.

Hægt er að setja Britax bílstól beint á stellið, ekki þarf sérstakar festingar til þess. Hins vegar er hægt að fá bílstólafestingar fyrir Maxi – Cosi stóla og eru þær þá keyptar sér.

 

Samantekt: Britax Smile 2 er elskuð af eigendum sínum og það ekki að óskekju þar sem hún er bæði lipur og notendavæn foreldri og barni. Britax Smile 2 er með sæti sem bæði getur verið fram- og bakvísandi og leggst flatt í 180 gráður. Stór skermur og svunta ver barnið fyrir veðri og vindum. Snúningshjól, loftdekk og afbragðs fjöðrun gera góða gönguferð enn betri. Stellið er hægt að nýta fyrir bílstól, vagnstykki og kerrusæti og hentar því afar vel fyrir börn frá fæðingu til fjögurra ára aldurs.