Ragnheiður Lára Guðrúnardóttir

Umsögn: Bugaboo Fox

28. október, 2018 | Kerrur

Linnea í Petit var svo yndisleg aða leyfa okkur fjölskyldunni að prófa Bugaboo Fox kerru/vagn. Við mátuðum hana við börn og aðstæður og sé ég nú fram á að þurfa að beita öllum mínum sannfæringakrafti eiginmanninum, þessa kerru þarf ég að fá! Ég var spennt að sjá hvernig Fox væri í samanburði við Buffalo og kom það skemmtilega á óvart hvað munurinn er mikill og hve vel Hollendingunum hefur tekist vel til að bæta vöru sína. Bugaboo Fox fellur undir skilgreininguna fjölnota ferðakerrur þar sem hægt er að nota sömu grind fyrir bílstól, vagnstykki og kerrustykki. Bugaboo Fox kemur sem kerra og vagn og því þarf ekki að kaupa vagn- eða kerrustykki aukalega.

 

Fox v.s. Buffalo
Helsti munurinn sem ég fann strax á Buffalo og Fox voru keyrslueiginleikar kerrunnar. Á Fox eru stærri hjól að aftan en að framan og skilar það sér svo sannarlega í liprari keyrslu. Aftari hjólin eru 12“ líkt og á Buffalo en 8,5“ að framan. Hjólin eru froðufyllt og þarf því ekki að pumpa í þau eða neitt slíkt. Dekkin eiga að ráða við grófan jarðveg og til að kerra komist ALLT er sérstök stilling á henni sem gerir manni fært að vippa minni dekkjunum upp og draga kerruna á tveimur dekkjum.

 

Bugaboo Fox
Bugaboo Fox er ótrúlega létt eða aðeins 9,9 kíló. Grindin er gerð úr áli og vegur aðeins 6,3 kíló. Ég fann talsverðan mun á því að draga kerruna upp stigana heima hjá mér og eins skilar léttleiki kerrunnar sér í keyrslueiginleika hennar. Þrátt fyrir að kerran sé hálfgert „fis“ upplifði ég algjörlega að hún væri traust og stöðug. Eitthvað hefur þeim tekist vel til með hönnunina því ég fann ekki mun á því að keyra kerruna með Bjart (20 kg) eða Mána (7 kíló). Þyngdarpunktar kerrunnar ráða þannig vel við ólíka þyngd án þess að keyrslueiginleikar kerrunnar tapist. Ég hugsa að þarna komi fjöðrun kerrunnar einnig við sögu en eitt að helstu kostum Bugaboo Fox er fjöðrunin sem hefur verið bætt frá fyrri gerðum.

 

Vagnstykkið
Vagnstykkið er merkilega breytt miða við netta kerru, breiðara, dýpra og lengra en á Buffalo kerrunni. Ég fann hvergi málbandið til að mæla vagnstykkið en það var svo að sjálfsögðu vel geymt undir koddanum hans Bjarts! Á mynd má sjá bráðum sex mánaða Mána, 68 sentimetra langan í vagnstykkinu og á hann þó nokkra sentimetra eftir! Þyngdarviðmið vagnstykkisins eru 9 kíló. Vagnstykkið er ótrúlega mjúkt að innan með góðri dýnu og vel ætti að fara um nýfætt kríli þar. Þá veitir skermurinn gott skjól fyrir sól og vindum.

 

Til að breyta vagninum í kerru er sami rammi notaður en vagnstykkinu rennt af og kerruáklæðið sett á. Þessi umskipting tekur mig um 10 mínútur að gera á Buffalo kerrunni en virðist vera örlítið flóknara hjá Fox. Hægt er að kaupa auka ramma til að hafa bæði vagn- og kerrustykki tilbúið til notkunar og er það eitthvað sem ég myndi skoða við kaup á þessari kerru.

 

 

Kerrustykkið
Kerrustykkið á Fox er nokkuð rúmgott og gátu bæði Bjartur (110 cm) og Máni (68) komið sér vel fyrir í því. Þyngdarmörk kerrustykkisins eru 22 kíló eða ætlað fyrir börn á aldrinum 6 mánaða til u.þ.b. fimm ára. Það sem ég elska við kerrusætið er að fimm punkta beltið er fest hvert og eitt fyrir sig í smelluna sem þýðir að ekki þarf að þræða beltið í sundur til að setja kerrupoka í eða raða festingum saman í japanska gestaþraut til að setja í smelluna. Þá er auðvelt að hæðastilla ólarnar með því að toga upp og niður böndin sem eru á hálfgerðum sleða inni í sætisbakinu. Það er mikill kostur sérstaklega ef tvö börn á ólíkum aldri eru að nota kerruna og þarf þá ekki að þræða böndin fyrir hverja notkun. Þessir eiginleikar varðandi ólarnar eru að mínu mati mikill kostur og gerir Fox að notendavænni kerru. Ég elska, elska þegar kerrur hafa svona einfalda fídusa!

 

Kerrustykkinu er hægt að snúa fram og aftur með því að smella því af og á. Þrjár hæðastillingar eru á sætisbakinu og afar auðvelt er að eiga við þær. Þar sem sætinu öllu er hvolft aftur þegar því er hallað en ekki aðeins fært til sætisbak er barnið ávalt í sitjandi vinkli þrátt fyrir að liggja. Fætur fara því upp en liggja ekki flatir. Að sumar mati er þetta ókostur og ég kýs sjálf kerru þar sem hægt er að leggja bakið alveg flatt. Öðrum þykir þessi staða betri fyrir sofandi barn heldur en flöt staða, svo skoðanir fólks hvað þetta varðar eru misjafnar.

 

 

Ég spurðist fyrir á facebook hvort foreldrar væru að setja þennan eiginleika fyrir sig og fékk ýmis svör. Sumir sögðu barn sitt ekki hafa sofið langa lúra í kerrunni á meðan aðrir sögðu barnið sitt hafa sofið hvað best í kerrustykkinu. Þá hafa foreldrar sem eiga börn með bakflæði greint frá því að börn þeirra hafa sofið best í þessari hálf liggjandi/sitjandi stöðu. Ætli hver og einn verði þá ekki að finna hvað henti sínu barni. Bjartur sofnaði a.m.k. strax í prufukeyrslunni og svaf í kerrunni í um 1 og ½ klukkustund og virtist líka það vel.

 

Skermurinn
Skermurinn á Bugaboo Fox er ein mesta snilldin við kerrurnar að mínu mati. Hann er í raun í þremur stillingum en til að ná þriðju stillingunni fram þarf að renna frá rennilás og eins hægt að minnka hann aftur með því að renna þriðja hlutanum saman. Í lengstu stillingunni nær skermurinn nánast yfir alla kerruna og veitir þannig góða einangrun og skjól. Nokkrar gerðir eru af skermum og heillar mig mest sú sem fóðruð að innan. Í umsögnum erlendis sé ég að skermurinn hefur aðeins verið gagnrýndur fyrir að hafa ekki glugga eða peekaboo window eins og þeir kalla þetta.

 

Handfang, bumper bar og bremsa
Handfangið á Fox er leðurklætt og auðvelt að hækka það og lækka með því að losa um tvo takka sitthvoru megin á handfanginu. Þá er öryggisól á handfanginu til að auka öryggi barnsins og mæli ég með því að slík ól sé notuð t.d. þegar gengið er niður brekku. Hægt er að kaupa helstu aukahluti á Fox líkt og á hinar Bugaboo kerrurnar en á Fox er gert ráð fyrir aukahlutum á fyrir fram ákveðnum stöðum s.s. eru festingar fyrir glasahaldarann á þremur stöðum á kerrunni þar sem rannsóknir sýndu að helstu slys á börnum í kerru voru vegna kaffisulls foreldra.

 

Á Fox fylgir með bumper bar hjálpi mér hvernig á að þýða það! Uuh öryggis slá? Anyways þá er hún leðurklædd og er í raun handfang á vagnstykkinu þannig að hægt er að nota það sem burðarrúm. Það hentar vel þeim sem búsettir eru á efri hæðum húsa og hafa ekki möguleika á að taka kerruna með sér upp. Sláin er afar vel fest á kerruna með einskonar beltisfestingu. Hún er það vel fest að það tók mig smá stund að finna út hvernig ætti að losa hana. Þá er einnig hægt að nota vagnstykkið sem hálfgerða vöggu og kaupa stand sem hægt er að setja bæði vagn – og kerrustykki á.

 

 

Bremsan á Fox hefur verið endurbætt og er nú þannig að stigið er niður á bremsuna bæði þegar hún er sett á og af. Er hún þannig gerð til að skemma ekki skóbúnað fólks og er þannig flipflop friendly, kannski ekki eitthvað sem við Íslendingar höfum þurft að setja fyrir okkur.

Leggja saman kerruna (folding)
Galli númer tvö á Bugaboo að mínu mati er hvernig kerrurnar eru lagðar saman. Hvernig getur það það tekið níu skref að leggja saman kerru, halló hollensku verkfræðisnillingar! Ég sé mig í anda útskýra þessi skref fyrir eiginmanninum nú eða ömmunni þegar barnið færi í pössun!

Ég komst nú samt sem áður fljótt upp á lagið með Buffalo kerruna mína og finnst ekki lengur mikið mál að taka hana í sundur og leggja saman. Ég get meira að segja sett hana aftur saman með annarri hendi ef ég er með barnið í hinni en það krefst smá lagni. Það er samt sem áður töluvert flóknara en á Baby Jogger City Elite kerrunni þar sem það er eitt skref að leggja kerruna saman!

Á Fox er búið að flækja enn frekar málin með sérstökum lás á miðri kerrunni. Hann er þó ekki aðeins ætlaður til að flækja málin heldur gegnir hann því hlutverki að halda kerrunni í ákveðinni stillingu þannig að hún getur staðið sjálf samanbrotin. Þá tók það mig nú ekki meira en dag til að ná þessu svo mjög flókið er það nú ekki. Á fox er boðið upp á one folded möguleika sem þýðir það að hægt er að leggja saman kerruna með annað hvort kerrustykkinu eða vagnstykkinu á. Kerran er þó heldur stór um sig þannig að mínu mati. Séu vagn- og kerrustykki tekið af verður umfang grindarinnar mun minna og getur kerran því tekið lítið pláss. Þá er tiltölulega auðvelt að leggja burðarúmið saman og minnka þannig umfang þess.

 

Útlit
Þá er það flóknasta og skemmtilegasta hvað varðar Bugaboo Fox! Það er útlitið og efnið á kerrunni. Hægt er að velja úr ýmsum gerðum af efnum  og litum og þannig getur maður hannað sitt eigið útlit á kerrunni. Efnin eru endurunnin úr plastflöskum og eru allt frá því að vera 50% endurunnin blanda í að vera 100% úr endurunni efni! Fyrir fólk með valkvíða er hægt að kaupa kerruna í ákveðnum classic litum eins og þessum hér (hjálp þetta er svo fallegt!!)

Ég mæli með því að kaupendur skoði t.d. myllumerkið bugaboofox á instagram til að fá hugmyndir af útfærslum. Með þeim fallegri útfærslum sem ég hef séð er kerran hennar Þórunnar Ívars sem er með fallega grænu áklæði.  Hægt er að hanna og panta sína kerru í versluninni Petit sem hefur umboð fyrir Bugaboo hér á landi og tekur um tvær vikur þá að fá kerruna afhenta.

Kostir:

  • Rúmgott vagnstykki.
  • Góður skermur.
  • Falleg (ó svo falleg!!)
  • Ótrúlega létt miða við veglega kerru.
  • Góð dempun.
  • Mjög gott að keyra og ræður við ójöfnur.
  • Leðurklætt handfang sem hægt er að hækka og lækka.
  • Stór karfa.
  • Hægt að nota vagnstykki sem burðarrúm
  • Hentar vel í notkun fyrir tvö börn með færanlegum ólum og uppáhalds systkinapallinum!

Gallar:

  • Sitjandi staða á kerrustykkinu
  • Mögulega aðeins of flókið að leggja hana saman

Stærðir:

  • Breidd kerrunnar: 60 cm.
  • Minnsta samanbrot: 66 x 54 x 19 cm
  • Samanbrot í einulagi (one-piece): 46 x 60 x 88 cm

 

Samantekt: Fullkomin, fim, falleg, fáránlega létt. Kerra sem kemst allt og hentar í nær öllum aðstæðum. Ef ég ætti 190.000 kall myndi ég kaupa hana núna strax! Kostir Bugaboo Fox eru margir og ber þá helst nefna góður skermur, rúmgott og mjúkt vagn- og kerrustykki og svo er ótrúlega gott að keyra kerruna og kemst hún allt!

Ps. Petit býður upp á Pei og Netgíró.. Hjálp!