Ragnheiður Lára Guðrúnardóttir

Umsögn: Crescent Compact 360 XT AIR

18. febrúar, 2019 | Kerrur

Ég rakst fyrst á Crescent vagnanna í verslunni Móðurást og þótti þeir áhugaverðir þar sem hönnun þeirra minnti mig á klassíska retro vagna. Þannig hafa þeir svipaðar stillingar og eiginleika og eldri gerðir af vögnum en með endurbættum og nútímalegum eiginleikum sem falla mögulega betur að þörfum foreldra í dag. Þar má nefna stærri skermur en tíðkaðist hérna áður fyrr og svo til dæmis snúningshjól á Compact 360 air kerrunni. Þá eru Crecsent vagnarnir hannaðir í Svíþjóð út frá þörfum norræna foreldra og henta því vel í aðstæðum hér á landi. Crecsent fyrirtækið hefur hannað reiðhjól í yfir 120 ár og því ekki nýtt á nálinni þegar að kemur að traustri og öruggri hönnun.

 

 

Reynsluprófun:
Við fjölskyldan höfum haft  Crescent Compact 360 Air að láni frá versluninni Litla Gleðigjafanum í nokkrar vikur og höfum farið með kerruna nokkrum sinnum í göngutúra. Þá hafa báðir drengirnir (þriggja ára og níu mánaða) setið í kerrunni og sá yngri tekið góða lúra þar. Við prófuðum kerruna bæði í snjó og hálku.

 

Lykilpunktar:

 • Þyngd: 13 kg
 • Þyngdarviðmið: 25 kg
 • Stærðir:
  • Sæti: L105*B30 cm
  • Handfang: 71 – 113 cm
  • Samanbrotin: L99*B54*H45 cm
  • Breidd milli dekkja: 54 cm

 

Sæti:
Sætið á Compact 369 Xt Air er  framvísandi og ætlað börnum frá sex mánaða aldri. Sætið er nokkuð langt og rúmar vel barn upp i fjögurra til fimm ára. Á sætinu er þrjár hæðastillingar, upprétt sitjandi staða, hvíldarstaða og svo lárétt staða. Upprétta staðan er mjög fín og að mínu mati situr barnið vel í þeirri stöðu. Það er góður eiginleiki þar sem börn eru stundum ósátt við kerrusæti sem annað hvort veitir þeim ekki nægjanlegan stuðning í uppréttri stöðu eða þvingar þau til að hálfliggja. Hvíldarstaðan er þarna mitt á milli sitjandi og liggjandi stöðu og svo er lárétt staða sem fer ekki alveg í 180 gráður en þar um bil. En vegna þess að bakið fer ekki alveg niður í 180 gráður hentar kerran ekki fyrir börn yngri en sex mánaða. Auðvelt er að eiga við hallastillingar á sætinu með stöng sem liggur þvert yfir sætisbakið og minnir á stillingar á klassískum kerrum. 

Fimm punkta belti er í sætinu með góðum púðum á ólum. Ólarnar eru festar saman með lykkjum svo þægilegt er að koma kerrupoka í og úr kerrunni. Tvær hæðastillingar eru á ólunum en þræða þarf þær úr sætinu til að breyta hæðinni. Sjálft sætið er með góðri bólstrun og skapar góð þægindi fyrir barnið.

Öryggisslá er á kerrunni og yfir hana fer belti sem ekki er hægt að fjarlægja alveg en leggja niður sé t.d. kerrupoki í kerrunni. Hreyfanlegur fótskemill er á kerrunni sem auðvelt er að eiga við. Er hann  færður til með járni undir honum. Ég las í erlendum umsögnum að foreldrar hefðu gagnrýnt hver erfitt það væri að taka efnið af fótskemlinum til að þvo en hef sjálf ekki reynslu af því.  

 

Skermur:
Skermurinn á Compact 360 Xt Air er nokkuð veglegur að mínu mati. Hann er stækkanlegur með rennilás og fer ágætlega yfir kerruna. Hann mætti þó haldast betur í stækkuninni en hann færist sjálfkrafa aðeins til baka eða helst ekki stífur í stækkuninni. Hægt er að hæðastilla skerminn með því að þrýsta honum upp eða niður. Finnst mér það frábær kostur til að skapa betri einangrun fyrir minna barn og býr til aukið pláss fyrir stærra barn.

 

Grind:
Grindin á Compact 360 Xt Air er tiltölulega létt en traust. Handfang er hæðastillianlegt með því að þrýsta inn tveimur tökkum á sitt hvorri hliðinni. Bremsan er stöng sem gengur þvert á milli hjólanna og auðvelt er að eiga við hana. Stönginni er ýtt niður þegar bremsan er sett á en ýtt upp þegar hún er tekin af.

Dekkin eru loftdekk sem er eiginleiki sem margir foreldrar leita af. Slík dekk ráða oft á tíðum betur við ójöfnur á veginum og erfiða færð s.s. snjó. Hjólin snúast 360 gráður að framan en auðvelt var að læsa dekkjunum sem og að taka þau af.

 

Burðakarfan á kerrunni er ágætlega stór og rúmar vel bústinn innkaupapoka. Þægilegt aðgengi er að körfunni bæði aftaná kerrunni sem og frá hliðum. Afar góð dempun er á kerrunni sem minnir á dempun á þessum stærri vögnum Emmaljunga og Simo.

Kerran er lögð saman með þeim hætti að sætið er lagt alveg fram og svo er tekið í lykkjur á grindinni sitthvoru megin. Kerran leggst þá saman. Hægt er að setja handgangið alveg niður og tekur kerran þá minna pláss.

 

 

Samantekt: í Crescent Compact 360 Xt Air sameinast klassíks hönnun nútímaþörfum foreldra með snúningsdekkjum og veglegum skerm. Compact Air er með rúmgóðu sæti og hentar börnum frá aldrinum sex mánaða til fjögurra ára. Hún leggst vel saman og er á loftdekkjum sem margir foreldrar kjósa fram yfir nútíma gúmmídekk. Crescent vagnarnir eru hannaðir í Svíþjóð og henta því einstaklega vel í norrænar aðstæður.