Ragnheiður Lára Guðrúnardóttir

Umsögn: Cybex Balios S

6. febrúar, 2019 | Kerrur

Fyrsta kerran sem kveikti áhuga minn á Cybex merkinu var Balilos S. Um þá kerru var rætt í facebook hópnum barnakerrur – tips og sala og eftir svolítið google varð ég mjög hrifin af kerrunni. Balios S tilheyrir Cybex gull línunni en í þeim flokki er einnig Eezy S kerrurnar. Priam og Mios tilheyra platínum línu Cybex. Í Cybex silfur línunni er svo Balios M sem virðist við fyrstu sýn ekki vera jafn vel útlátin kerra og Balios S (minni dekk úr hörðu gúmmí, minni dempun o.s.frv.).

Balios S er hugsuð sem alhliða kerra, er bæði létt og lipur en einnig vegleg og traust. Hún myndi því henta vel í öllum aðstæðum og væri eflaust sú kerra sem ég myndi mæla með ef foreldrum vantaði einfaldlega góða, pottþétta kerru. Balios S fellur undir flokkinn 3 in 1 þar sem hægt er að nota grindina fyrir bílstól, kerrustykki og vagnstykki. Balios S býr yfir þeim frábæra eiginleika líkt og Priam að svokallaðir “minnistakkar” eru á grindinni sem gerir manni kleyft að ýta einungis á annan takka í einu þegar svissað er um kerru- eða vagnstykki. Þannig getur maður átt við kerruna með einni hendi sem er afar þægilegt að mínu mati.

Lykiltölur:
Cybex Balios S:

  • Sæti: L96sm*B30sm
  • Vagnstykki:L86 cm
  • Samanbrotin: 41*60*75sm
    • Dýna L77sm
  • Breidd milli dekkja: 59sm.
  • Þyngd: 11,2 kg.
  • Þyngdarmörk: 25 kg (17 kg EU staðlar)

Við fengum Balios S að láni frá netversluninni Dóttir og Son og höfum nú prófað hana í nokkrar vikur. Við fórum með hana í gönguferð í bænum og um hverfið. Drösluðum henni í gegnum snjóskafla og fleiri torfærur. Höfum farið með þó nokkrum sinnum í Smáralind og aðrar verslanir og notað hana sem grind fyrir bílstólinn. Máni (8 mánaða) hefur prófað fram- og bakvísandi sætið sem og tekið hádegislúr í vagnstykkinu. Bjartur hefur setið í kerrusætinu framvísandi.

Það kom mér strax á óvart hve Balios S er þægileg í notkun, bæði er mjög þægilegt að eiga við hana s.s. að taka hana í og úr bíl og taka kerru- og vagnstykki af. Þá eru keyrslueiginleikar kerrunnar vægast sagt frábærir þar sem mikð hefur verið lagt upp úr góðri dempun í hönnun hennar.

Kerrusætið.
Vinsældir Balios S má líklega að miklu leyti rekja til hins frábæra kerrusætis. Sætið er rúmgott og hentugt í notkun miða við litla og létta kerru. Sætið sjálft er 96cm á lengd og 30cm á breidd. Hreyfanlegur fótskemill er á kerrusætinu sem býður upp á aukin þægindi  fyrir barnið í hvíld. Þá eru þrjár hæðastillingar á sætisbaki. Í neðstu stillingu getur barnið legið alveg flatt í kerrunni svo sætið hentar vel fyrir pínulítil kríli. Þá situr barnið vel uppi í efstu stillingu. Máni tók góðan lúr á göngu í sætinu og svaf afar vel þar. Á sætinu er öryggisslá sem auðvelt er að fjarlægja.

 

Sætið er með fínustu bólstrun,  fimm punkta belti og púðum á ólunum. Hægt er að hæðastilla ólarnar á hálfgerðum sleða. Helsti galli Cybex kerrana er að ólarnar sem fara yfir barnið eru fastar saman og því þarf að þræða ólina úr festingunni til að setja kerrupoka í. Það er þó tiltölulega einfalt, á sumum kerrum þarf jafnvel að þræða bandið afturfyrir sætisbakið til að losa það. Það væri þó frábært ef Cybex tæki Bugaboo og Silver Cross til fyrirmyndar og hefði hverja og eina ól sér (ein pínu þreytt með margar kerrur og poka í gangi!).

Hægt er að fá hreiður í kerrusætið á Balios S sem hentar vel fyrir nýfædd kríli.

 

Vagnstykki
Cot S, vagnstykkið á Balios S er selt sér sem er ákveðinn kostur þegar kerran er keypt fyrir eldra barn þar sem ekki er þörf á vagnstykkinu. Vagnstykkið sjálft er 85 cm á lengd en dýnan er 77 cm. Dýnan er þykk og úr memory foam sem styður við rétta legustöðu barnsins. Áklæði vagnstykkisins að innan er úr afar mjúku einangrandi efni og þvo má bæði af dýnu og áklæði af innan á 30 gráðum í þvottavél.

 

Svunta er á vagnstykkinu sem er smellt á og leggst yfir stykkið. Þá er hægt að smella svuntunni upp í skerminn sem er algjörlega frábært og hentar vel litlum krílum í vetrarkuldanum. Skermurinn á vagnstykkinu er ágætur en mætti fara betur yfir það að mínu mati. Skyggni er á skerminum sem hjálpar því aðeins að veita skjól. Þá er handfang á skerminum svo þægilegt er að halda á vagnstykkinu sem vegur aðeins  um 4 kg.

 

Skermur:
Skermurinn á Balios S kerrustykkinu er það sem heillaði mig fyrst þegar fór að skoða hana á netinu, enda með mikið skermablæti! Skermurinn er stækkanlegur með rennilás og nær þá mjög vel yfir kerruna og lokar hana nánast af. Á skerminum er gjægugat sem opnast með flipa.

 

Grindin
Grindin á Balios S vegur um rúmlega 7 kíló. Grindin er einföld og nett en að sama skapi ákaflega stöðug og traust. Handfangið er hæðastillt og bremsan er hin frábæra Cybex bremsa sem virkar eins og sveif og er afar þægileg í notkun. Burðakarfan er í stærra lagi og gott rými er í körfuna bæði þegar kerru- og vagnstykki eru á. Burðarkarfan er úr mjúku efni og teygist því með farangrinum svo ýmsu er hægt að troða í hana.

 

Á kerrunni er þrep fyrir eldri börn að hvíla fætur á sé sætið í framvísandi stöðu. Ég finn það að þessi eiginleiki skiptir miklu máli fyrir þægindi Bjarts (3 ára) þegar hann situr í kerrunni. Hann virðist eiga erfiðara með að koma sér fyrir þegar fæturnir dingla lausir. Stundum er þetta þrep mjög aftarlega á kerrum þannig að barnið þarf að teygja fæturnar aftur til að ná á þrepið sem getur heldur ekki verið þægilegt. Að mínu mati var þrepið á Balios S fullkomlega staðsett fyrir fæturnar á Bjart.

Dekkin á Balios S eru úr mjúku gúmmíi og var ég í fyrstu ekki svo viss um hvort þau væru froðufyllt eða ekki. Dekkin að framan eru minni en að aftan og eru einnig snúningshjól sem hægt er að læsa með einföldum hætti. Ágætis grip er á dekkjunum og þægilegt var að keyra kerruna í snjó og annarri torfæru. Það sem mér finnst eiginlega einn helsti kostur Balios S er fáránlega góð dempun en gormadempun er í hverju hjóli sem gerir aksturinn svo þægilegan! Mér finnst það virkilega vel gert fyrir tiltölulega ódýra kerru.

 

Það sem ég var einnig afar ánægð með Balios S og er einn helsti kostur Cybex kerra er hve þægilegt er að leggja kerruna saman. Á Balios er bæði hægt að leggja kerruna með sætinu fram- og bakvísandi. Tekið er í takkann sem notaður er til að hæðastilla sætisbakið og því er hvolft alveg fram. Þá er handfangið sett niður í neðstu stöðu, þrýst inn takka á handfanginu og smellur kerran þá saman. Grindin læsir sér með sveif og getur staðið sjálf. Þá er einnig hálfgert handfang undir sætinu sem gerir það að verkum að þægilegt er að bera kerruna samanlagða. Þar sem ég er mikið með kerruna í bílnum fannst mér afar þægilegt að eiga við Balios S og hikaði ekki við það að kippa henni með mér hvert sem ég fór.

 

 

Samantekt: Cybex Balios S er einföld, pottþétt og tiltölulega ódýr kerra sem hefur alla þá kosti sem kerra ætti að búa yfir. Rúmgott og þægilegt sæti sem legst flatt í láréttri stöðu og getur verið fram- og bakvísandi. Góður skermur sem fer vel yfir kerruna og veitir gott skjól fyrir vindi og sól. Góð dempun og dekk sem ættu að ráða við flestar torfærur. Hægt er að leggja kerruna saman með einni hendi sem og að taka kerru- og vagnstykki af og á.