Ragnheiður Lára Guðrúnardóttir

Umsögn: Cybex Eezy S Twist

31. janúar, 2019 | Kerrur

Ég var í heimsókn í hinni fallegu borg Strasbourg (mæli með) í Frakklandi. Tilgangurinn var vinnuferð en ég var aðeins búin að vafra á google maps að kanna hvort ekki væru einhverjar barnavöruverslanir í borginni. Fyrir ykkur sem vissuð ekki þá er fátt skemmtilegra en að skoða kerrur erlendis, bæði á götum úti og í verslunum (já það er virkilega gaman að ferðast með mér!). Þar sér maður nýjar kerrur og merki og það er svo gaman að geta komið við og prófað.

Ég var því ekkert lítið spennt þegar það kom í ljós að það var falleg barnavöruverslun staðsett við hliðina á hótelinu mínu. Sú verslun seldi meðal annars Bugaboo, Yoyo og Cybex. Við komu í verslunina rak ég strax augun í netta kerru sem heillaði mig strax og við nánari skoðun reyndist vera Cybex Eezy S Twist.

Ég hafði ekki hugmynd um að Cybex væri að framleiða ferðakerrur og varð virkilega spennt (vinkona mín getur staðfest það). Við smá fikt gat ég lagt kerruna saman, án þess að hafa skoðað bækling eða myndband og snúið sætinu á henni í hring. Svo einföld í notkun er hún! Ég íhugaði það mjög alvarlega að kaupa hana þarna úti og nema með hana land hérna heima en biðlaði til þeirra í Nine Kids að taka hana inn. Sem þau gerðu! Og nú er hún hér og þú lesandi góður getur vippað þér í Nine Kids í Fellsmúla og skoðað þessa kraftaverkakerru. Þarft ekki að kaupa þér flug til Strasbourg!

Lykilpunktar:

  • Stærðir:
    • Sæti: L75cm x B28cm
    • Handfang: H101cm
    • Samanbrotin: 28cm x 45cm x 58cm
  • Breidd milli hjóla:
    • Að framan 44 cm
    • Að aftan 34 cm
  • Þyngd: 6 kg.
  • Þyngdarviðmið: 17 kg.
  • Má nota kerruna frá fæðingu.

 

Reynsluprófun
Við fengum Eezy S Twist lánaða í nokkra daga frá versluninni Nine Kids, takk fyrir það!! Við prófum kerruna í ýmsum aðstæðum bæði í snatti og göngutúrum um hverfið. Báðir strákarnir mínir (átta mánaða og þriggja ára) nýttu sér kerruna og voru ákaflega sáttir við hana. Í highligts á instagram síðunni minni (notendanafn kerrutips) má sjá nánar um notkun okkar á henni.

 

Cybex Eezy S Twist
Eezy  S Twister ólík öllum öðrum kerrum sem ég hreinlega hef skoðað að því leytinu til að hægt er að snúa sætinu í 360 gráður með einu handtaki. Undir sæti kerrunnar er takki sem tekið er í og er þá hægt að snúa sætinu í hvaða átt sem er! Ekki þarf að taka sætið af til að snúa því.

 

Það að geta snúið barninu að sér er frábær eiginleiki sem margir foreldrar sækjast eftir. Það veitir foreldrum öryggi að láta barnið snúa að sér þegar það er ungt. Eins finnst mér sjálfri gaman að geta myndað augnsamband við barnið og spjallað við það á meðan það er í kerrunni. Enn skemmtilegra er að fylgjast með svipbrigðum barnsins þegar það upplifir heiminn. Þá legst sætisbakið flatt í láréttri stöðu og hægt er að kaupa hálfgert hreiður í kerruna svo hún hentar afar vel fyrir pínulítil kríli.

 

 

Sætið sjálft er með fimm punkta belti og er auðvelt að hæðastilla ólarnar á hálfgerðum sleða. Púðar eru á ólunum sem auka þægindi barnsins. Sætið er ekki með fótskemil en sé barnið í framvísandi stöðu getur það sett fæturnar á pall á milli hjólanna. Þrátt fyrir að það sé ekki fótskemill er sætið sjálft nokkuð langt eða 75 cm sem er sama lengd og á sætinu á Silver Cross Jet að fótskemli meðtöldum. Barnið ætti því að geta legið ágætlega í kerrunni. Máni, átta mánaða kom sér bæði mjög vel fyrir liggjandi og sitjandi í kerrunni.

Sætisbakið er fært upp eða niður með sleða aftaná bakinu og þannig getur maður ráðið hæðarstillingunni sjálfur sem mér finnst mikill kostur. Skermurinn á kerrunni er mjög fínn og lokar vel af kerruna í neðstu stöðu. Skermurinn er með UPF50+ vörn og ver því barn vel fyrir sól (kannski ekki nauðsynlegt á þessu sumarsvelta landi!!).

 

Dekkin eru úr mjúku gúmmíi og eru sömu stærðar að framan og aftan. Kerran er þó nettari um sig að aftan og komst léttilega á milli minnstu rekka í verslunum. Góð gorma dempun er á öllum dekkjum. Burðakarfan er nokkuð rúmgóð miða við smæð kerrunnar og rúmaði skiptitöskuna. Bremsan er sú sama og á öðrum Cybex kerrum sem ég hef prófað, hún virkar eins og hálfgerð sveif sem stigið er á bæði til að setja bremsuna á og taka hana af.

 

Mjög þægilegt var að eiga við kerruna og eru svipaðar stillingar á henni og öðrum Cybex kerrum. Til að leggja kerruna saman þarf að leggja sætið saman með því að taka í takk inn efst á sætisbakinu. Því næst er tekið í takka á handfanginu og leggst kerran þá saman. Hægt er að gera þetta með einni hendi, eiginleiki sem ég dýrka við Cybex kerrurnar!

 

Cybex Eezy S Twist passar í handfarangurs hólf flugvéla og las ég í erlendum umsögnum að fólk hefði tekið hana með sér í flug hjá EasyJet og fleiri flugfélögum. Miða við stærðarreglur á handfarangri hjá Icelandair og Wowair þori ég ekki að fullyrða að kerran mætti fara með inn í vélina og mæli með því að fólk kanni slíkt hjá flugfélaginu sjálfu áður en lagt er að stað í ferðarlagið 

  • Eezy S Twist samanbrotin: 28cm x 45cm x 58c
  • Handfarangur Wow air: 56 x 45 x 25
  • Handfarangur Icelandair: 55 x 40 x 20 cm

Cybex Eezy S Twist er hægt að nota fyrir bílstól. Bæði er hægt að taka sætið af og koma festingunum fyrir á grindinn sjálfri en einnig hægt að setja festingarnar á með sætinu á. 

 

Ýmsir aukahlutir eru fáanlegir fyrir Eezy S Twist og seljast þeir sér s.s. Ferðapoki, öryggislá, regnplast, glasahaldari, skipulagstaska, skiptitaska o.s.frv. Ég er mjög hrifin af því þegar hægt er að kaupa aukahluti sem eru sérhannaðir fyrir ákveðna kerru sem tryggir það að þeir bæði henta og passa kerrunni sjá hér

 

 

Samantekt: Cybex Eezy S Twist er frábær snatt- og ferðakerra. Hún hefur þann eiginleika að hægt er að snúa sæti kerrunnar í 360 gráður með einu handtaki. Þá er hægt að eiga við kerruna með einni hendi s.s. að leggja hana saman og taka sætið af grindinni. Eezy S Twist hentar börnum frá fæðingu til fjögurra ára aldurs og hægt er að fá bílstólafestingar á hana. Eezy S Twist er svo fyrirferðalítil að hún rúmast í handfarangurshólfi flestra flugvéla.