Ragnheiður Lára Guðrúnardóttir

Umsögn: Cybex Eezy S+

12. febrúar, 2019 | Kerrur

Eftir að hafa verið frekar æst yfir Cybex Eezy S Twist rakst ég á aðra Cybex Eezy S kerru, Eezy S+. Þær eru sem sagt þrjár týpur af Eezy S kerrum hjá Cybex. Upphaflega gerðin er Eezy S, Eezy S twist er snúanleg útgáfa af henni (fjallaði um hana hér) og svo er til Eezy S+ sem er stærri útgáfa af Eezy S kerrunni (ruglingslegt??).

Förum yfir þetta aftur:

  • Eezy S: Nett ferðakerra sem pakkast vel saman.
  • Eezy S TWIST: Nett ferðakerra sem pakkast vel saman og hægt er að snúa sætinu.
  • Eezy S+: Nett ferðakerra sem pakkast vel saman en er með stærri hjólum, sæti og fótskemil.

Í þessari umsögn verður fjallað um Eezy S+! En hún eins og hinar Eezy kerurrnar tilheyra gull línu Cybex (þar er líka Balios S). Eezy S+ er hægt er nota fyrir bílstól, þá fæst ferðapoki fyrir kerruna svo þægilegt er að ferðast með hana. Kerran er með “one handed” stillingum sem ég elska!

Við fengum kerruna að láni frá netversluninni Dóttir og Son og reynsluprófuðum hana í um mánuð. Við höfum dröslað henni með okkur flest, báðir drengirnir hafa nýtt sér kerruna og líkað vel. Við höfum farið með hana á miðbæjarölt í miklum snjó. Kíkt með hana í verslunarmiðstöðvar, læknaheimsóknir og bara nefndu það! Þegar ég segist elska þessa kerru er það vægt til orða tekið. Ég myndi elskast með þessari kerru! Við höfum myndað með okkur mjög náið samband og ætla ég að fá mér hana sjálf. Eezy S+ verður að tilheyra kerruflota fjölskyldunnar, við getum engan vegin án hennar verið.

 

 

Lykiltölur:
Cybex Eezy S+:

  • Sæti: L85cm*B32sm
  • Samanbrotin: 29cm*45cm*59cm
  • Hæð á handfangi: 101 cm
  • Breidd milli dekkja:
    • Að framan 36 cm
    • Að aftan: 44 cm
  • Þyngd: 7 kg.
  • Þyngdarmörk: 17 kg EU staðlar
  • Verð: 42.900 krónur

 

Kerrusæti
Sætið á Eezy S+ er með góðri bólstrun og fimm punkta belti. Hreyfanlegur fótskemill lengir sætið svo um munar og er ég nokkuð viss um að það sé í lengra lagi miða við svo netta kerru. Þá er það einnig nokkuð breitt. Ég skil ekki einu sinni hvernig það getur verið svona rúmgott á lítilli kerru en málbandið lýgur víst ekki!

 

Ól aftaná sætisbaki er notuð til að hæðastilla sætið sem er þægilegur eiginleiki að mínu mati. Þá leggst sætisbakið flatt í 180 gráður og hentar því einnig fyrir nýfædd börn. Vilji maður nýta kerruna fyrir mjög lítil kríli væri ef til vill ráðlagt að fá sér hreiðrið (Cybex Cocoon S) til að skapa sem mestu þægindi fyir barnið.

 

 

Báðir drengirnir mínir (þriggja og níu mánaða) sátu afar vel í kerrunni. Bjartur þessi eldri kom sér mjög vel fyrir þökk sé pallinum eða tröppunni á milli hjólanna framaná. Hann gat tillt fótunum þar og hentar kerran því nokkuð hávöxnum börnum. Máni þessi minni bæði sat í kerrunni og tók nokkra lúra líka. Fór afar vel um hann í báðum atvikum.

 

Skermur
Ég er með óeðlilega mikið skermablæti þegar það kemur að kerrum og skermurinn á Eezy S+ stóðst allar mínar kröfur og væntinga. Hann er ótrúlega veglegur og nær vel yfir kerruna. Skermurinn er stækkanlegur með rennilás og skyggni er á honum líka. Skermurinn helst vel í þeirri stöðu sem hann er settur í og réð vel við smá vind. Á skerminum er gjæjugluggi með neti sem auðvelt er að eiga við.

 

 

Grind
En það er ekki bara skermurinn og hallinn á sætisbakinu sem er snilld við þessa litlu kerru. Nei það eru dekkin og dempunin. Vel gert Cybex segi ég nú bara! Dekkin eru nokkuð stór eða 17 cm að þvermáli framan en 21 cm að aftan. Dekkin eru úr fremur mjúku gúmmíi og ráð því vel við ójöfnur í veginum. Auðvelt er að læsa fremri dekkjum með því að ýta á takka. Gormadempun er á hverju hjóli sem gerir það að verkum að afar þægilegt var að aka kerrunni í gegnum snjó og klaka.

 

 

Bremsan er sú sama og á hinum Cybex kerrunum. Þægileg fótbremsa sem stigið er á bæði til að taka bremsu af og setja á. Burðakarfan er mjög vegleg miða við litla kerru og komst skiptitaskan vel fyrir. Líklega kæmist einn nánast fullur innkaupapoki fyrir.

 

 

Það er algjör dásemd að leggja kerruna saman en það er eiginleiki sem skiptir mig miklu máli. Tekið er í takka á miðju handfangsins og smellur kerran þá saman. Hið sama er þá gert þegar kerran er aftur tekin upp. Kerran læsir sér og stendur sjálf sem er snilld þegar koma þarf kerrunni fyrir. 

 

 

Hægt er að fá bílstólafestingar á kerruna og nota hana með bílstól. Aðrir aukahlutir sem hægt er að fá á kerruna er t.d. öryggisslá, regnplast, ferðataska, kerrupoki, vettlingar fyrir foreldri og skipulagstaska.

 

Samantekt: Cybex Eezy S+ er hin fullkomna snattkerra sem hentar vel í öllum aðstæðum. Stór dekk ráða við snjó og torfærur. Veglegur skermur ver barn fyrir sól og vindi. Rúmgott sæti og fullkominn 180 gráðu halli á sætisbaki skapa hin bestu þægindi fyrir barn á aldrinum 0 – 4 ára. Kerran er lögð saman með einu handtaki og dásamlegt er að eiga við hana. Eezy S+ ætla ég að fá mér sjálf fyrir mín börn.