Ragnheiður Lára Guðrúnardóttir

Umsögn: Cybex Priam 2019

12. apríl, 2019 | Kerrur

Ég hef verið beðin um það af lesenda að halda tilfinningum mínum í hófi við gerð umsagna hér á síðunni. Fjalla um kerrurnar á hlutlausan hátt vera ekki svona hrifnæm af þeim öllum. Ég ætla að gera mitt besta en verð þó að vera einlæg í upplifun minni. Við gerð þessarar umsagnar þarf ég eflaust að vanda mig töluvert við að stilla tilfinningum í hóf þar sem að þessa ákveðnu kerru á ég sjálf og elska afar, afar heitt. Það er eins með kerrur og börn, þau sem maður sjálfur á eru frábærust og best!

Kerran sem um hér ræðir er hin eina sanna Cybex Priam 2019. Ég er búin að fjalla um 2018 gerðina eins og má sjá hér en þótti elsku Priam eiga skilið að fá nýja umsögn í ljósi betrumbættar hönnunar.

Ég er búin að eiga Priam 2019 nú í um tvo mánuði (finnst eins og ég hafi alltaf átt hann!) og notað hann í hinum ýmsu aðstæðum. Búin að dröslast með hann í gegnum snjóskafla og malarvegi. Arka yfir maramagólfið í Kringlunni og vaða fuglaskít við Tjörnina. Stóri bróðir hefur oft fengið far á Cybex systkinapallinum og við höfum notað regnplastið og Lite cot svuntuna sem við keyptum aukalega. Allt hefur þetta staðist væntingar okkar. Við höfum ekki notað bílstól á grindinni þar sem Máni var kominn í stól númer tvö þegar kerran var keypt og að sama skapi var hann vaxinn upp úr vagnstykkinu. Við fengum þó vagnstykkið í næturpössun og gátum þá þuklað svolítið á því og myndað það.

Í grunninn er Priam 2019 ansi svipaður 2018 gerðinni og einkenna sömu frábæru eiginleikaranir báðar týpurnar. Hins vegar hafa talsverðar breytingar orðið á áklæði og ýmsum smáatriðum á 2019 Priam. Förum í þetta nánar!

Lykiltölur:

 • Stærðir:
  • Kerrusæti: 40cm x 100cm
  • Lite cot: 28cm x 74cm
  • Vagnstykki:
   • Ytra mál: 46cm x 85cm
   • Dýna: 32cm x 78cm
  • Samanbrotin:
   • Með hjólum: 95cm x 57,5cm x 42cm
 • Þyngdir:
  • Kerra með sæti eða vagnstykki: 12,5kg
  • Þyngdarviðmið 17 – 25 kg (fer eftir USA eða EU stöðlum)

Kerrusæti:

Það var hið dásmlega LUX kerrusæti sem upphaflega heillaði mig hvað mest við Priam. Á eldri gerðinni var hægt að velja um tvær gerðir af sætum en nú er bara um lux sætið að velja. Sem er ekki slæmur kostur því lux sætið stendur heldur betur undir nafni og er algjört lúxus sæti vegna bólstrunnar, stærðar og hæðastillinga. Bólstrunin á sætinu er með þeim betri sem ég hef séð og er í raun tvöföld bólstrun með innleggi sem hægt er að fjarlægja. Þetta djúsí sæti nánast tekur barnið í “fangið” þar sem bólstrunin fer einnig meðfram hliðum. Þá eru mjög góðir púðar á ólum og klofsmellu svo vel ætti að fara um barnið.

Sætið sjálft er afar rúmgott og líklega með þeim lengri á markaðnum. Hreyfanlegur fótskemill er á kerrustykkinu sem eiga þarf við með tökkum á sitthvorri hliðinni. Fimm punkta belti er í sætinu. Ólar sem fara yfir miðju barns og axlir eru fastar saman svo það þarf að ræða þær úr efstu festingu til að þræða kerrupoka í. Þannig fara tvær festingar í klofsmelluna er afar þægilegt er að eiga við. Ólarnar eru hæðastillanlegar á sleða.

Þá er það uppáhaldið mitt við Priam, hæðastillingarnar á sætinu! Þær eru fjórar talsins og er átt við þær með takka aftaná sætinu. Upprétt staða er afar góð að mínu mati og situr barnið vel í þeirri stöðu.Önnur staða er hentug t.d. ungum börnum sem ekki eru alveg farin að sitja eða sem sitjandi staða þegar Lite cot er í. Þriðja staða er fín hvíldarstaða og hentar mínum dreng vel þegar hann á að fara að sofa en hann vill alls ekki leggjast niður (einhver sem tengir!!). Fjórða staða er alveg flöt lárétt staða sem er hentar vel fyrir sofandi barn í lengri lúrum.

Kerrustykkið getur bæði verið fram- og bakvísandi og er tekið af með því að ýta á takka sitthvoru megin á sætinu. Þökk sé one handed stillingum á sætinu er hægt að gera það með annarri hendi þar sem takkarnir eru svokallaði “minnistakkar” sem ekki þarf að ýta á samtímis.

Skermurinn á kerrusætinu er vel einangraður úr heldur þykkara efni en á 2018 gerðinni. Áklæði hans að innan er kulda-, regn-, vind-  og sólarvarið og einangrar vel. Hægt er að stækka skerminn með rennilás. Í stækkuninni er flipi sem opnar fyrir loftgöt sem nýtist einnig vel sem gægjugluggi. Skermurinn fer vel yfir kerruna þegar sætið er upprétt en hefði af mínu mati mátt fara aðeins betur yfir kerruna þegar sætið er alveg flatt í neðstu stöðu. Skyggni er á skerminum sem hægt er að leggja inn í skerminn.

Lite Cot:

Lite cot er selt sér og er hugsað sem aukin þægindi í kerrusætinu fyrir barn á aldinum 0 – 6 mánaða og sem svunta fyrir barn á aldrinum 0 – 4 ára. Lite Cot er þannig tvær vörur í einni, hreiður annars vegar og svunta hins vegar.

Hreiðrið er þrætt í gegnum ólarnar á kerrustætinu og er þá eins og einskonar burðarúm í sætinu. Mjúk dýna er í hreiðrinu sem hægt er að fjarlægja og nota sem innlegg í sætið þegar barnið er vaxið upp úr hreiðrinu sjálfu. Áklæðið innan í hreiðrinu og dýnan sjálf er úr 100% bómull, með góðri öndun og er vind-, regn- sól- og kuldavarið. Þá brýst Lite Cot saman með kerrunni sem er afar þægilegt fyrir foreldra á ferð og flugi. Svuntan sjálf er stækkanleg og festist á grindina með smellum. Efnið í svuntunni er úr sömu gæðum og hreiðrið. Þá eru segla festingar í svuntunni svo auðvelt er að brjóta upp á hana sé barnið t.d. sitjandi. Svuntan er bómullarklædd og þykk og skapar því mjög góða einangrun. Við höfum töluvert notað svuntuna og er hún afar þægileg í notkun, lipur og falleg!!

Vagnstykki:

Vagnstykkið á Priam er selt sér og stækkaði um 15% frá 2018 árgerðinni! Nýja vagnstykkið er þá með þeim stærri á markaðnum og er afar rúmgott fyrir 3 in 1 kerru.

Að innan verðu vagnstykkinu er lagt upp úr góðri bólstrun fyrir litla krílið. Þannig er auka innlegg meðfram hliðum úr þykkri bómull sem svo hægt er að fjarlægja. Dýnan sjálf er klædd bómullaráklæði og er þykk og mjúk. Svuntan á vagnstykkinu er fest með rennlás sem er vatns- og vindvarinn. Svuntan er úr þykku efni, bómullaklædd að innan. Svuntan smellist upp í skerminn og skapast þannig fín einangrun.

Skermurinn sjálfur er úr einangrandi efni líkt og skermurinn á kerrustykkinu. Skermurinn fer ágætlega yfir vagnstykkið en er ekki stækkanlegur. Skyggni og handfang er á skerminum.

Grind:

Ó það sem ég féll meðal annars fyrir við Priam er dásamlega fallega stellið sem er hannað að innblæstri verka Eames hjónanna.  Grindin er sterkbyggð en samt svo létt og lipur í keyrslu. Það er góð fjöðrun í stellinu bæði í grindinni sjálfri en einnig er gormafjöðrun. Dekkin eru froðufyllt í góðri stærð og hafa ráðið vel við alla færð. Auðvelt er að taka dekkin af sem og að læsa fremri dekkjum. Á 2018 Priam var hægt að velja um milli þriggja mismunandi tegunda á dekkjum en á 2019 gerðinni eru aðeins ein dekk sem eiga að henta í öllum aðstæðum. Þó er enn hægt að fá skíði í stað fremri dekkja sem mig langar mikið til að prófa. Á Priam er svokallað “two wheele mode” sem virkar þannig að ýtt er á takka sitthvoru megin á grindinni og kerrunni þrýst saman þannig að aftari dekkin falla að þeim fremri og ekur kerran þá aðeins á stærri dekkjunum. Þessi stilling gerir manni kleift að fara með kerruna í flestar aðstæður s.s. strönd, snjóskafla, skógarstíga eða upp tröppur. Ég hef notaða stillinguna töluvert í mesta snjónum til að koma henni yfir skafla sem og alltaf þegar ég þarf að fara með kerruna upp í íbúðina mína sem er á annarri hæð.

Bremsan á Priam virkar eins og hálfgerð sveif og er afar auðvelt að eiga við hana. Bremsan fellur undir flokkin „flip flop friendly brake“ þar sem ekki þarf að ýta upp með tánum á hana heldur er stigið á bremsuna bæði þegar hún er sett á og tekin af.

Handfangið er leðurklætt og bíður upp á fjórar mismunandi hæðastillingar frá lægstu stillingu 98 cm til hæstu 108 cm. Hægt er að breyta hæðastillingum með einum taka á handfanginu. Á handfanginu er öryggisól sem gott er að nota t.d. þegar gengið er niður brekkur eða ekið kerrunni með annarri hendi. Burðarkarfan á Priam 2019 er í góðri stærð 40cm*34cm*24cm og rúmar meira en hún virðist gera! Þá er hægt að loka körfunni með segulflipa sem er frábær eiginleiki, bæði til að hlífa varningi í körfunni og gerir Priam fallegri ásýndar.

Hægt er að leggja kerruna saman með sætinu á. Því er þá hvolft fram með sama takka og sætisbakið er hæðastillt með. Því næst er þrýst á takkann sem notaður er til að hæðastilla handfangið og það fært niður í neðstu stöðu eða þar til það heyrist “klikk”. Þá er tekið í miðju kerrunnar og falla þá dekkin saman. Hægt er að draga stellið á dekkjunum sem er nokkuð þægilegt. Hægt er að leggja kerruna saman með einni hendi sem og að fjarlægja kerru- og vagnstykki af með því að ýta á hvorn takka fyrir sig sitthvoru megin á stykkjunum.

Annað:

Með Cybex Priam fylgja bílstólafestingar ætlaðar Cybex bílstólum en þær passa einnig mörgum Maxi Cosi stólum. Þá fylgir einnig með regnplast. Hægt er að velja um þrjá liti á grind:  króm, mattan svartan og rósagull með brúnu eða svörtu leðri. Hægt er að velja um fimm liti: Svartan, bláan, gráan (eins og minn), rauðan, og bleikan. Þá eru innan Cybex ákveðna “fashion” vörulínur og er hægt að velja milli þriggja áklæða á Priam í þeirri línu. Fleiri vörulínur eru einnan Cybex t.d. Samstarfslínur við hönnuði og áhrifavalda og getið þið skoðað betur útlitsvalkosti á Priam hér:

Hægt er að fá ýmsa aukahluti á Priam og fengum við okkur systkinapall sem hefur reynst okkur ákaflega vel. Pallinum er auðveldlega smellt af og á. Teygja fer úr stellinu í pallinn sem gerir það að verkum að hann lyftist upp þegar hann er ekki í notkun. Þyngdarviðmið á pallinn eru 20 kíló og passar hann einnig á Balios S.

Samantekt: Cybex Priam býður upp á lúxus vagnstykki og kerrustykki sem hægt er að leggja flatt í láréttri stöðu.  Nýja áklæðið á Priam er vatns- , vind-, kulda- og sólaravarið og skapar svuntan á Lite Cot hina fullkomnu einangrun í íslensku veðurfari. Priam er afar einföld og þægileg í notkun með one handed stillingum og one pice folding. Gormafjöðrun, stór dekk og “two wheel mode” koma Priam hvert sem er, yfir hvað sem er. Þá hefur útlitið á Priam WOW áhrif þar sem hönnun hennar er klassísk innblásin af verkum Eames hjónanna.