Ragnheiður Lára Guðrúnardóttir

Umsögn: Emmaljunga NXT 90 F OUTDOOR

28. febrúar, 2019 | Kerrur

Emmaljunga er sænskt merki frá árinu 1926 og hefur verið leiðandi á markaði barnakerra allar götur síðan. Emmaljunga vagnar og kerrur eru meðal annars hannaðar með norrænar aðstæður í huga og henta því vel hér á landi. Merkið hefur verið afar vinsælt hér á landi síðustu áratuginu og veit ég til þess að móðir mín var í Emmaljunga vagni árið 1957 og ég sjálf var í einu slíkum árið 1986. Sjálf átti ég svo Emmaljung fyrir miðjubarnið mitt árið 2105. Ég reikna ekki með öðru en að barnabörnin mín verði í Emmljunga vagni eftir vonandi þó nokkur ár samt!

Þær Emmaljunga kerrur sem hafa fyrst og fremst verið að heilla mig í síðustu misseri eru hinar svokölluðu NXT 30/60/90 kerrur sem hafa svo hver og ein undirtýpur. Þá er einnig hægt að fá NXT TWIN sem er tvíburakerra og NXT90 GO DOUBLE sem er systkinakerra. NXT 90 kerran er með “ergonomisku” sæti sem helst í sitjandi vinkli þegar það er lagt aftur, NXT 90 F hefur sæti sem leggst flatt í láréttri stöðu og NXT 90 B er lúxus útgáfa af NXT 90. Þessar týpur hafa svo undirgerðir sem eru fjórar:

  • ECO: Úr endurunnum efnum.
  • LOUNGE: Er á loftdekkjum og með nettari vagnstykki.
  • COMPETITION: Er á froðufylltum dekkjum.
  • OOUTDOOR: Er á vel mynstruðum loftdekkjum og hentar vel í alla færð.

Eru þið alveg týnd? Ég mæli þá með heimsókn í Fífu og einum góðum 106 blaðsíðna Emmaljunga bæklingi þar. Sú kerra sem við fengum til láns er NXT 90 F Outdoor og verður sjónum einkum beint að henni í þessari umsögn.

 

Emmaljunga NXT 90 F OUTDOOR:

 

Prufukeyrsla:

Við fengum kerruna lánaða í nokkra daga frá verslunni Fífu. Við fórum með kerruna í göngutúr með kerrustykkinu á og prófuðum svuntuna. Það var mikill snjór og klaki á götum þessa daga sem við höfðum kerruna sem kom sér vel í allri prófun. Hún á þessum tryllings dekkjum og réð að sjálfsögðu við allar hindranir. Máni minn (9 mánaða) bæði sat í kerrunni og lagði sig í henni og líkaði það vel. Bjartur (verður fjögurra í júlí) prófaði að sitja í kerrunni og rúmaðist ágætlega þar. Hann fer þó yfir þyngdarviðmið kerrunnar svo ég þorði ekki að fara með hann á eitthvað vapp í hættu á að kerran myndi skemmast. Svona þar sem hún er í láni. Ég held hins vega að þetta tryllitæki þoli mun meira er 17 kíló! Svíarnir eru bara ekki að taka neina sénsa í öryggismálum, það er víst. 

Ég æfði mig í að pakka kerrunni sundur og saman. Þá notaði pabbinn óvart vagnstykkið þegar hann ruglaðist á kerrum (enda mikið úrval á þessu heimili).  Að hans sögn rúmaðist Máni vel í vagnstykkinu og svaf þar góðan lúr. Vagnstykki sem þessi er þó yfirleitt aðeins ætlað fyrir börn að sex mánaða og þyngramörkin í yfirleitt um 9 kíló.

 

Lykiltölur:

  • Stærðir:
    • Sæti: L89(104)cm*B32cm
    • Vagnstykki:
      • Innra mál;76*34*21 cm
      • Ytra mál; 81*38*34 cm
    • Samanbrotin án hjóla: 80*48*18cm
    • Milli hjóla: B58,5cm
  • Þyngdir:
    • Stell: 9,7 kg
    • Sæti: 6,1 kg
    • Vagnstykki: 4,6

Kerrusæti:

 

Það sem heillaði mig fyrst við Emmaljunga NXT 90 F sætið á kerrunni. Það er bæði nokkuð rúmgott sem og með góðri bólstrun. Þrjár hæðastillingar eru á stætisbaki sem fært er með takka aftan á bakinu. Í láréttri stöðu leggst bakið alveg flatt í 180 gráður, eiginleiki sem ég kýs helst fyrir mín börn. Hvíldarstaðan (milli hæðastillingin) er einnig fín og stundum vill Máni frekar sofna í þeirri stöðu. Upprétt staða er mjög fín og styður vel við barnið í sitjandi stöðu. Færanlegur fótskemill er á sætinu sem færður er upp og niður með tökkum sitthvoru megin á skemlinum. Öryggisslá er á sætinu sem auðvelt er að fjarlægja.

Fimm punkta belti er á sætinu með púðum á ólum. Ólar sem fara frá hliðum barnsins og yfir bringu  eru festar saman með krækju sem gerir auðveldara að þræða kerrupoka í og úr. Klofsmellan er þægileg í notkun, alls ekki of stíf eða flókin. Tvær hæðastillingar eru á ólum en þræða þarf þær inn í bakið á kerrunni til breyta hæðinni.

Sætið sjálft er með mjög fínni bólstrun og fór mjög vel um Mána í því. Kerrusætið er fjarlægt með að þrýsta samtímis á takka sitt hvoru megin á sætinu. Þá getur sætið bæði verið fram- og bakvísandi.

Ég hugsa að NXT 90 F kerran bjóði upp á einna mestu einangrun af þeim kerrum sem eru á markaðnum í dag (á þó eftir að prófa lite cot á Priam). Bæði lokar skermurinn vel kerruna af en einnig er hægt er að fá þykka svuntu á sætið sem er orðið nokkuð sjaldgæfur eiginleiki hjá kerrum í dag. Svuntan smellur bæði upp í skerminn á kerrunni og utan á hana svo hún veitir mjög fína einangrun. Þá er rennilás fyrir miðju svuntunnar svo þægilegt er að renna frá þegar barnið situr í kerrunni og brjóta svuntuna niður.

Skermurinn er bæði vind- og vatnsheldur og er úr þykku efni. Hann helst vel í þeirri stillingu sem hann er settur í. Hægt er að stækka skerminn með rennilás en er stækkunin úr netaefni sem ef til vill hentar ekki hér landi yfir háveturinn!

Önnur einangrun er á sætinu sem er þannig að  þegar sætið er lagt niður í láréttra stöðu kemur brot upp á endann á sætinu sem lokar sætið betur af. Þetta er einnig hugsað sem vörn fyrir barnið ef eitthvað lendir á kerrunni (eða foreldrið keyrir á – sem hefur gerst. Ekki ég samt! Alls ekki ég).

 

Vagnstykki:

Hægt er að fá tvenns konar vagnstykki á NXT 90  kerrurnar en það vagnstykki sem ég prófaði kallast Supreme Carrycot. Supreme vagnsstykkið svipar mjög til þessa hefðbunda Emmaljunga vagnstykkis sem er frábær eiginleiki fyrir létta kerru eins og NXT.

Vagnstykkið kemur fullbúið með skerm og svuntu ætluðu því. Það sem heillaði mig einna mest við vagnstykkið var hversu djúpt það er sem og fallega áklæðið innan á. Dýnan í vagnstykkinu er þykk og mjúk sem og áklæðið i kring. Hægt er að taka áklæði af og þvo. Botninn á Supreme vagnstykkinu er svokallaður “thermobase” botn sem veitir frábæra einangrun og möguleika á að stilla loftflæði inn í vagninn eftir því hvort heitt eða kalt sé í veðri.

Í botninum er plata sem hægt er að reisa upp undir dýnunni og veitir barninu stuðning við að sitja uppi. Það er eiginleiki sem ég met mjög mikið og sakna í vagnstykkjunum á Fox og Priam. Efnið utan á vagnstykkinu er bæði vatns- og vindheld og veitir góða einangrun. Svuntan á vagnstykkinu smellist upp í skerminn og lokar opið þannig betur af. Skermurinn er veglegur og þykkur, með flipa fyrir netaglugga. Sjálfri finnst mér að skermurinn mætti fara aðeins betur yfir vagninn en hann er í þessar hefðbundu stærð.

Á svuntunni er vasi með rennilás en einnig er lítill vasi innan í vagninum sem hentar vel fyrir snuð, pela og slíkt. Á sitthvorri hlið vagnsins eru langir vasar með rennilás sem eru sniðugir geymslustaði fyrir net eða regnplast. Hægt er að fella kerrustykkið saman svo það taki minna pláss í bíl. Þá er hægt að láta vagnstykkið rugga sé það lagðt á gólf.  

 

Stell:

Stellið á NXT 90 F Outdoor er eflaust með þeim sterkbyggðari á markaðnum! Mér leið allavega eins og ég gæti hent þessari kerru úr flugvél og hún myndi lenda á dekkjunum, reiðubúin í torfærur. Þrátt fyrir að vera svo sterkbyggð torfærukerra er hún lipur í akstri.

Það er góð fjöðrun í kerrunni, bæði í grindinni sjálfri sem og í dekkjum sem eru loftdekk. Slík dekk bjóða upp á betri fjöðrun en forðufyllt eða gúmmí dekk. Í reynslu akstrinum var mikill klaki á götum og sem reyndi vel á fjöðrunina. Þá eru dekkin með mjög grófu mynstri sem hentaði fullkomlega í snjó- og klaka færð. Auðvelt var að læsa dekkjunum sem og að taka þau af.

Burðakarfan er mjög fín og vel stór, myndi segja að hún tæki léttilega þrjá væna innkaupapoka. Bremsan er hin fínasta en ekki þessi “flip flop friendly” og hún var ekkert sérstaklega ljúf fyrir skólausa fætur þar sem beita þarf tánum og ristinni við að lyfta henni af. Enginn meiddist þó og hún var vel viðráðanleg.

Þegar kerran er lögð saman þarf að taka sætið eða vagnpartinn af grindinni. Kerran býður ekki upp á svokallað “one piece folding”. Beita þarf báðum höndum til að taka kerru- og vagnstykki af. Þá er handangið fært alveg niður með því að losa um festingar sitt hvoru megin á grindinni. Því næst er tekið í tvo lása fyrir miðju grindarinnar og leggst kerran þá saman. Nokkur skref sem þetta tekur en tiltölulega einfalt í verki.

Fylgstu með á instagram ef þig langar að sjá meira!

 

Samantekt: Emmaljunga NXT 90 F OUTDOOR er sterkbyggða torfærukerran í flóru hinna svokölluðu „3 in 1“ kerra. Gróf mynstruð loftdekk fleyta henni yfir alla færð. Þrátt fyrir að vera stórgerð og kröftug er hún létt og meðfærileg í keyrslu. Rúmgott og vel einangrað sæti sem leggst flatt í 180 gráður sem og supreme vagnstykkið bjóða upp á fullkomin þægindi fyrir barn á aldrinum 0 – 4 ára. NXT 90 F er tiltölulega einföld í notkun og pakkast vel saman.