Flestar spurningar sem ég fæ snúa að systkinakerrum, skiljanlega. Það eru svo margar á markaðnum en samt sem áður svo lítið úrval! Við val á systkinakerru þurfa foreldrar virkilega að velta því fyrir sér í hvað kerran verður notuð út frá því hve gömul börnin eru og hve mikill aldursmunur (og þyngdarmunur er á þeim)! Ef um er að ræða systkini með 2 – 3 ára aldursbili hentar tvíburakerra ef til vill ekki en góð systkinakerra eða góður systkinapallur ef til vill betur. Silver Cross Coast er ætluð til að mæta þörfum þessa hóps. Foreldra sem nota kerruna fyrst og fremst fyrir eitt barn en með möguleiki á að bæta við systkinasæti.
Coast fullkomnar heilaga þrennu Pioneer og Wave og uppfyllir þannig þarfir margra foreldra sem hinar tvær gera ekki. Þannig er hún mun vandaðri og gerðarlegri en Pioneer að mínu mati (ég er ekki Pioneer fan! Sjá hér) og svipar meira til Wave hvað varðar gæði en er léttari og minni um sig.
Lykilpunktar:
- Þyngd á kerru:
- Stell: 10 kg
- 12,5 kg með kerrustykki
- 13 kg með vagnstykki.
- Þyngdarviðmið:
- 25 kg í kerrustykki
- 9 kg í vagnstykki
- 20 kg í systkinasæti
- Stærðir:
- Kerrustykki: L96cm*B33cm.
- Vagnstykki: L82cm*B36cm.
- Opin Kerra: L92cm, B60cm, H90cm.
- Samanbrotin: L93cm*60cm*H33cm.
- Breidd á milli hjóla: 60 cm.
Við fengum að prufukeyra reynslueintak hjá Silver Cross á Íslandi og vorum svo heppin að fá að hafa kerruna í nokkrar vikur. Þannig gátum við prófað kerruna í flestum þeim aðstæðum sem okkur datt í hug og fundið hvernig hún mætti okkar hversdaglegu þörfum!
Taka skal fram að Coast kemur í sölu í febrúar/mars hér á landi en er ekki heldur komin í sölu erlendis. Það er því lítil reynsla komin á kerruna og fáar erlendar umsagnir.
Coast kom í tveimur afar stórum kössum en auðvelt var að setja hana saman líkt og aðrar Silver Cross kerrur (frábært fyrir óþolinmóða klaufa!). Í kassanum var vagnstykki, kerrustykki, skermur sem nýtist á bæði stykkin, öryggisslá, regnplast, flugnanet, glasahaldari og bílstólafestingar fyrir Silver Cross bílstól.
Stellið:
Það sem heillaði mig strax við Coast var hið svarta stílhreina stell. Svo ótrúlega létt en samt sterkt. Stellið er gert úr magnesíumblönduðu áli sem gerir það að verkum að stellið sjálf er tiltölulega létt, tæp 10 kíló en þolir meiri þunga en margar aðrar kerru (s.s. tvö börn!).
Á Coast eru festingar fyrir vagnstykki, kerrustykki og bílstólafestingar og því flokkast kerran undir 3 in1 eða fjölnota ferðakerra. Þessar festingar sem eru á kerrunni er hægt að færa til og breyta þannig hæð kerru- og vagnstykkis. Barnið getur þannig setið mjög ofarlega ef þörf er á og gefur þannig rými fyrir auka systkinasætið. Mjög auðvelt er að eiga við þessar stillingar.
Á stellinu er fínasta bremsa sem ekki þarf að eiga við með tánum eða ristinni. Ýtt er á rauðan hnapp til að setja bremsuna á en grænan til að taka hana af. Ekki flókið það! Þá er einnig mjög auðvelt að hæðastilla handfangið með einum takka fyrir miðju þess. Sjálf notaði ég hæð sem var einhverstaðar fyrir miðju svo kerran hentar vel lágvöxnum jafnt sem hávöxnum. Handfangið sjálft er leðurklætt með oxuðu Silver Cross merki fyrir miðju. Mjög fínt fyrir augað!
Það er auðvelt að leggja kerrunna saman. Tekið er í lykkjur sitthvoru megin á handfanginu og þrýst á takka við aðra lykkjuna á saman tíma. Grindin leggst þá saman. Hægt er að leggja hana saman með kerrustætinu á. Helsti galli þessara stærri Silver Cross kerra að mínu mati er hve stórar þær eru um sig samanlagðar.
Dekkin eru úr mjúku gúmmí og réðu við allar þær aðstæður sem ég prófaði kerruna í s.s. möl, mold og snjó. Það mætti þó vera aðeins meiri för í dekkjunum til að þau réðu betur við snjó en þau runnu svolítið til. Að öðru leiti er gott að keyra kerruna en hún er ekki jafn lipur að mínu mati og Bugaboo Fox og Cybex Priam en eflaust nokkuð lipur miða við systkinakerru með sterklega grind.
Ágætis fjöðrun er í grindinni en mætti algjörlega vera betri. Ég finn satt best að segja afar litlar upplýsingar um fjöðrunina og ekki virðist vera um gormafjöðrun að ræða.
Innkaupakarfan er úr hörðu plasti og er afar vegleg. Ég fór til að mynda fótgangandi í jólainnkaupin og kom fyrir gjörsamlega fáránlega miklu dóti s.s. Nokkrum innkaupapokum, rútu af bjór og tveimur pökkum að bleyjum (fer það ekki vel saman!).
Vagnstykki:
Vagnstykkið er tæp þrjú kíló að þyngd og nokkuð rúmgott miða við kerru í þessum flokki, 82 cm á lengd og 36 sm á breidd. Að innan er vagnstykkið klætt með bambusáklæði sem er svo mjúkt og dásamleg. Dýnan er þykk og úr mjúkum svampi og er 70 cm á lengd og 30cm á breidd.
Áklæðið utan á vagnstykkinu er þykkt og gæðalegt og er svipað og er á Wave. Öryggissláin er í formi handfangs á vagnstykkinu og er hún leðurklædd. Svuntan á vagnstykkinu er fest með frönskum rennilás en með smellum við skerminn. Ég myndi sjálf ekki mæla með því að kerran sé lögð saman með vagnstykkinu á.
Kerrustykki
Kerrustykkið á Coast er 2,5 kíló að þyngd og nokkuð rúmgott, 96 cm á lengd og 33 cm á breidd. Þyngdarviðmið kerrustykkis er 25 kíló. Það er með færanlegum fótskemli. Þrjár hæðastillingar eru á kerrustykkinu sem i sem virka þannig að öllu stykkinu er hallað aftur og því helst kerran í sitjandi vinkli í láréttri stöðu. Ég er sjálf hrifnari af kerrusætum þar sem barnið getur lagst flatt í láréttri stöðu en Máni svaf samt sem áður afskaplega vel í kerrusætinu á Coast og kvartaði ekki! Öryggislá er á kerrusætinu sem auðvelt er að losa öðrum eða báðum megin.
Fimm punkta belti er á kerrustykkinu og er þessi týpíska Silver Cross festing þar sem tvær lykkjur eru settar saman og svo inn í smelluna. Ég er farin að kunna mun betur við þessa festingu en ég gerði fyrst. Kannski að venjast henni! En á Coast héldust þessar tvær festingar vel saman svo ekki var erfitt að eiga við ólarnar. Með svona festingu er einnig þægilegra að koma kerrupoka í og úr þar sem ekki þarf að þræða ólarnar úr bakinu í gegnum pokann.
Bólsturnin í kerrustykkinu er afa góð, einhvers konar memory foam innlegg er í bakinu! Á ólum og smellu eru mjúkir púðar sem hægt er að taka af. Þrjár hæðastillingar eru á ólum en það þarf að þræða þær úr sætinu til að breyta hæð þeirra.
Hægt er að snúa kerrusætinu bæði að foreldri og frá. Þá er hægt að leggja kerruna saman með sætinu á en hún er nokkuð fyrirferðamikil þannig.
Systkinasætið er selt sér og mun þola um 20 kíló. Sjálft sætið virðist vera að sömu stærð og sætið sem fylgir kerrunni. Systkinasætið er ekki komið til landsins og kemur væntanlega ekki fyrr en kerran sjálf kemur. Ég hef því ekki reynslu af sætinu sjálfu og finn litlar upplýsingar á netinu um hvernig það virki.
Skermur:
Einn skermur fylgir kerrunni svo færa þarf hann á milli stykkja með því að smella honum af og á. Skermurinn á Coast er úr þéttu og stífu efni. gluggi er á skerminum sem opnað er með filpa. Á skerminum er veglegt skyggni sem hægt er að færa inn í skerminn eða tosa út.
Þar sem skermurinn er ekki eins stór og á t.d. Bugaboo eða Baby Jogger City Elite gerir skyggnið gæfumuninn og ver barnið fyrir sól og veitir einangrun.
Reynsluprófun:
Eins og fram kom prófuðum við kerruna í nokkrar vikur og höfum því ágætis reynslu af kerrunni. Ég var í fyrstu ekkert allt of spennt fyrir kerrunni. Til að byrja með fannst mér hún virka þung og stíf en var fljót að venjast henni og er nú afar sátt við hana. Máni (6 mánaða þegar við fengum kerruna nú að verða 8 mánaða) nýtti sér bæði vagnstykki og kerrustykki og líkaði hvoru tveggja vel. Bjartur prófaði kerrustykkið og gat komið sér vel fyrir í því.
Þá notaði pabbinn kerruna í nokkra daga á meðan ég var erlendis og líkaði hana vel. Hann, þessi elska er frekar lélegur í öllum stillingum og festingum og þarf oft aðstoð við að ráða fram úr smellum og tökkum. Honum tókst algjörlega vandræðalaust að nota kerruna svo það hljóta að vera fínustu meðmæli! Þá hef ég mikið notað Coast fyrir bílstólinn og finnst mjög þægilegt að kippa grindinni með mér þegar ég var að hlaupa inn í Kringlu og slíkt stúss.
Kostir:
- Rúmgott og mjúkt vagnstykki
- Góð bólstrun á kerrustykki
- Þægileg og einföld í notkun
- Fallegir detailar á efni og grind.
- Hentar vel í notkun fyrir ungabarn og eldra barn þar sem auðvelt er að svissa á milli vagn- og kerrustykki.
- Hæðastillingar á handfangi.
- Kerrustykki getur snúið fram og aftur.
- Ótrúlega létt systkinakerra.
Gallar:
- Stór um sig samanbrotin.
- Kerrustykki leggst ekki flatt í láréttri stöðu.
- Dekk úr gúmmíi
Samantekt: Silver Cross Coast er fullkomin kerra fyrir stækkandi fjölskyldur. Bæði hentar hún afar vel fyrir eitt barn en er einnig sem systkinakerra. Coast er bæði létt og nett en einnig sterkbyggð og traust kerra. Coast er hentug í notkun þar sem hægt er að svissa á milli bílstóls, kerrustykkis og vagnstykkis eftir því sem við á. Þá er útlit kerrunnar afar vandað og þægindi barnsins í fyrirrúmi með góðri bólstrun í kerrusæti og dúnamjúku áklæði í vagnstykki .
Nánari umfjöllun um kerruna má sjá á instagram (notendanafn kerrutips). Þar má einnig finna samanburð á Coast, Priam og Fox.
Nánari upplýsingar:
https://silvercrossus.com/silver-cross-coast-stroller-flint.html