Ég hafði leitað af henni lengi, þessari sálukerru minni. Svo stóð hún þarna einn daginn, blýsperrt og algjörlega tilbúin í hvaða ævintýri sem er og ég vissi strax frá fyrstu stundu að ég elskaði hana. Hún var nákvæmlega það sem ég hafði leitað af. Væntingar mínar höfðu ekki verið miklar, enda brennd af fyrri reynslu þegar ég hélt að ég hefði fundið þá einu réttu (umsögn silver cross reflex). En þegar ég bar hana augum vissi ég að hún væri sú eina rétta. Snattkerran mín er fundin!
Já við erum að tala um kerru! Ég hef verið að leita af hinni fullkomnu skott/snatt kerru í þrjú ár! Silver Cross Jet kom á markað í sumar og varð ég samstundis svolítið heit fyrir henni. Hún virtist hafa marga þá eiginleika sem ég leitaði af. Létt, pakkaðist vel saman, góður skermur, sætistbak sem hægt er leggja flatt í láréttri stöðu. Ég í mínum haus var búin að ákveða að Silver Cross Jet væri frekar „hrá“ kerra, fyrst og fremst ætluð til að nota á flugvöllum þar sem hún hefur mikið verið auglýst sem kerra sem taka má með í handfarangur! Það kom mér því töluvert á gleðilega á óvart hve gæði kerrunnar eru mikil og hvað hún virðist traust og vegleg.
Kerruna fékk ég að láni til prufukeyrslu frá Silver Cross á Íslandi en þau geta gleymt því að fá hana aftur, we belong together. Ég mun borga hvað sem er fyrir hana (eða svona næstum því). Takk Silver Cross á Íslandi! Það er mikill heiður að fá að reynsluaka kerrum og ef ég fengi þær ekki að láni væri erfitt fyrir mig að láta þessu síðu ganga upp!
Eigum við að segja þetta bara góðan inngang?! Hér kemur umsögnin!
Fyrstu kynni
Kerran kom í agnarsmáum kassa sem var á stærð við sirka fjóra cheerios pakka. Ég var eitthvað að mikla það fyrir mér að púsla kerrunni saman og lét því duga fyrst um sinn að horfa bara á kassann. Þegar ég sá fyrir mér að hafa klukkutíma aflögu (sem gerist afar sjaldan í mínu þriggja barna lífi) réðst ég til atlögu og opnaði kassann. Ég hefði í mesta lagði þurft 5 mínútur í þetta verkefni þar sem kerran kom samansett og aðeins þurfi að setja á hana fremri dekkin og öryggislánna (bumper bar). Ég var búin að setja hana saman ÁÐUR en ég fann leiðbeiningabæklinginn! Í kassanum var kerran, öryggisslá, poki utan um kerruna og regnplast! Ég hafði alls ekki búist við regnplasti og hafði meira að segja velt því fyrir mér áður en ég opnaði kassann hvort ég gæti einhvern vegin bundið Baby Jogger regnplastið mitt á kerruna svo ég gæti farið með kerruna út haustgöngu.
Það kom mér strax á óvart hve kerran var gæðaleg, efnið í áklæðinu er þykkt og veglegt. Þá er handfangið leðurklætt og öryggissláin einnig. Sætið er með góðri bólstrun og sá ég strax að þarna myndi fara vel um litla Mána minn. Ég hafði lesið í umsögnum erlendis að fólki þætti erfitt að leggja kerrunna saman og bjóst því við einhverjum barningi en það reyndist svo vera lítið mál.
Leggja kerruna saman
Þegar kerran er lögð saman er þrýst á tvo takka við miðju handfangsins og handfangið beygt niður í hálfgert M. Það þarf smá lagni í að ýta á báða takkana samstímis en það er hægt með einni hendi! Þá er takka neðst á kerrunni ýtt upp, svipað og á regnhlífakerrum. Handfanginu er svo ýtt niður og svo gerist eitthvað undur og volla kerran verður að litlum böggli. Mér tekst núna að leggja kerruna saman í öllum (tveimur!) skrefum með einni hendi svo það má með svo sanni segja að æfingin skapi meistarann. Þegar kerran er samanbrotin gegnir öryggissláin hlutverki handfangs þannig að hægt er að draga kerruna um með því að halda í slánna eða skella henni á öxlina eins og tösku.
Sætið
Sætið á Silver Cross Jet er 75 sentimetri á lengd og 26 sentimetri á breidd. Að mínu mati hefði mátt skella nokkrum sentimetrum í viðbót í lengdina en nægt pláss er frá enda sætisins að skermnum sjálfum. Sætið er ágætlega bólstrað og hægt er að leggja það alveg flatt í lárétta stöðu sem er mikill kostur. Sætisbakið er fært upp og niður með klemmu sem er svipuð þeirri á baby jogger city elite. Sjálf er ég hrifnari af slíkum eiginleika þar sem hægt er að ráða hallastillingu baksins sjálfur í stað þess að boðið sé aðeins upp á tvo til þrjá hallamöguleika. Á sætinu er einnig fótskemill sem hægt er að hækka og lækka sem eykur þægindi barnsins í hvíld. Þrjár hæðastillingar eru á sætisólum og nokkuð auðvelt að breyta hæðinni. Þrátt fyrir að lengdin á kerrusætinu sé ekki mikil gátu bæði Bjartur (113 cm) og Máni (70) cm setið vel í sætinu.
Fimm punkta belti er í kerrunni og er hvert og eitt band sér en ekki fast saman sem er þægilegra þegar þræddur er kerrupoki í kerruna. Sama festing er á Jet kerrunni og öðrum Silver Cross kerrum. Setja þarf saman tvær ólar og þeim svo smellt saman inn í smelluna. Á reflex kerrunni minni var það mjög stíft og héldust festingarnar tvær ekki saman svo halda þurfti þeim saman og reyna svo að þrýsta þeim í smelluna, yfirleitt hrukku þær í sundur við þrýstingin og var ég mjög ósátt við þessa festingu! Á Jet kerrunni smellast festingarnar tvær saman og smellan sjálf er ekki svo stíf þannig að lítið mál er að festa barnið í kerruna.
Karfa, dekk, bremsur og handfang
Einn helsti galli kerrunnar er eflaust burðarkarfan en er hún bæði heldur lítil sem og járnstöng fer yfir hana þvera sem gerir það að verkum að nánast aðeins er hægt að setja staka hluti í kerruna en t.d. ekki poka. Það var engin leið fyrir mig að koma skiptitöskunni (taupoki) ofaní körfuna og þurfti ég næstum að tæma hann til að koma honum fyrir.
Dekkin á kerrunni eru í það minnsta en virðast ráða við ýmislegt samt sem áður. Keyrði ég með kerruna yfir gras, möl og mold og komst hún ferðar sinnar með léttum leik. Dekkin eru úr mjúku plasti og hægt er að læsa fremri dekkjunum. Afar þægilegt er að keyra kerruna og léttilega hægt að gera það með einum fingri! Keyrslueiginleikar kerrunnar breyttust ekki við að þyngra barn sæti í henni. Gormafjöðrun er á kerrunni sem gerir hana að enn meiri lúxus kerru!
Á kerrunni er fínasta fótbremsa. Hún virkar þannig að stigið er á rauða pedalann hægra megin þegar bremsan er sett á en stigið á græna pedalann vinstra megin þegar bremsan er tekin af. Bremsur sem þessi eru kallaðar „flip flop friendly brake“ erlendis og er tilgangur hennar sá að meiða ekki hálfberar tásur eða skemma skófatnað fólks.
Annar galli á kerrunni er að mínu mati handfangið sem ekki er hægt að hækka eða lækka. Það er fast í einni stöðu sem að mínu mati er í lægri kantinum eða 95 sentimetri og væri ég sjálf til í að hafa það örlítið hærra (ég er 170 cm á hæð) maðurinn minn sem er hærri en ég kvartaði samt sem áður ekkert yfir þessu. Handfangið sjálft er klætt leðurlíki (líkt og öryggissláin) sem gerir mikið fyrir útlitið á kerrunni.
Skermurinn
Það kom mér í sjálfur sér á óvart hve veglegur skermurinn á Jet kerrunni er. Eflaust þar sem ég bjóst við mun „hrárri“ kerru. Hann er úr þéttu efni sem virðist geta tekið á sig góða haustlægð og regn. Þá er hann stífur og helst fastur í þeirri stöðu sem hann er settur í þrátt fyrir rok og annað mótlæti. Skermurinn nær vel yfir kerruna og skapar góða einangrun fyrir lítið kríli. Á skermnum er gluggi sem lokað er fyrir með flipa þannig að hægt er að kíkja á barnið. Þegar barnið liggur í láréttri stöðu er hægt að opna flipa á sætisbakinu og kemur þá í ljós net líkt og er á baby jogger city elite kerrunni. Þessi eiginleiki hefur mér þótt afar mikill kostur þegar barnið hvílir sig í heitu loftslagi.
Reynsluprófun
Við höfum talsvert notað kerruna þessa viku sem hún hefur verið til láns hjá fjölskyldunni. Ég fór með Mána í langan göngutúr þar sem hann tók góðan lúr og fór afar vel um hann. Ég hafði regnplastið á til að skapa enn betri einangrun.
Þá fórum við Máni með kerruna í Smáralind og var ég þá orðin nokkuð flink í að skella henni saman og sundur. Þar komst ég meira að segja að því að ég gat lagt kerruna saman með Nanook kerrupokann í sem er algjör snilld! Það var mjög gott að koma kerrunni á milli búðarrekka og inn í minnstu mátunarklefa. Við vorum heldur lengi í Smáralind þar sem við vorum að undurbúa og versla gjafir fyrir afmæli elsta barnsins. Vanalega hefði ég haft Mána í bílstólnum en ekki er mælt með því að hafa börn lengi í bílstól og jafnvel ganga sumir svo langt að mæla gegn því að bílstólar séu notaðir í öðrum tilgangi en fyrir barn að ferðast í bíl þar sem löng seta í þeim getur valdið „flötu höfði.“ Mér leið því einstaklega vel með að geta lagt Mána flatt í lárétta stöðu þar sem hann tók sér góðan blund í búðarröltinu. Hins vegar hefði komið sér vel að vera með stærri körfu þar sem ég kom afar litlu af því sem ég var að versla fyrir í körfunni. Þá kom það sér hins vegar vel að geta keyrt kerruna með einni hendi og haldið á pokunum í hinni.
Við héldum svo upp á afmæli elsta barnsins á veitingarstað þar sem við ætluðum einnig í keilu. Þá kom sér afar vel að vera með svo smávaxna kerru sem auðvelt var að kippa með inn á veitingarstaðinn ef ske kynni að Máni vildi leggja sig. Við geymdum kerruna bara undir borði og var það síðan Bjartur sem helst notaði kerruna þegar hann var orðinn þreyttur (það er líka auðveldara að halda á 7,5 kílóa barni en 20 kílóa!).
Við höfum bæði geymt kerruna í forstofunni sem og í bílnum og fer ótrúlega lítið fyrir henni. Þá er afar þægilegt að geta auðveldlega kippt henni með og fór ég léttilega með bílstólin í annarri hendi og kerruna í hinni.
Lykilpunktar:
- 5,9 kg
- Hentar fyrir 0 – 3 ára.
- Þyngdarviðmið 15 – 18 kg (eftir evrópskum eða usa stöðlum)
- Stærðir:
- Sæti 75 cm
- Samanbrotin: L18cm* B30cm* H55
- Breidd á milli hjóla: 53 cm
- Tekur svo lítið pláss!!
- Hægt að fá bílstólafestingar fyrir Silver Cross stóla (Maxi – Cosi festingar væntanlegar).
- Góður skermur.
- Sætisbak leggst flatt í láréttri stöðu.
Samantekt: Ég kolfallin! Silver Cross Jet er hin fullkomna ferða-, skott-, snattkerra sem bæði er með vel einangruðum skerm, ágætri dempun og sætisbaki sem leggst flatt í láréttri stöðu og bíður því upp á kósí hvíldarstað fyrir börn á ferð. Dekkin ráða við erfiðara undirlag en flísarnar í Smáralind og því hægt að redda sér með þessa elsku í flestum aðstæðum. Þá gerir regnplastið gæfumun í íslenskri veðráttu. Fullkomin í flugið og á ferðalagið hvort sem það er í breskum vetrarkulda eða í spænskri hitabylgju.
p.s. Á instagram (notendanafn umsogn.is) má sjá munnlega umsögn í highlights stories undir SC Jet.