Ragnheiður Lára Guðrúnardóttir

Umsögn: Silver Cross Pioneer

20. september, 2018 | Kerrur

Daginn eftir að hafa fengið jákvætt á þungunarprófi í september 2017 hófst kerruleitin mikla að nýju. Nú stóð ég frammi fyrir því að þurfa hugsanlega á systkinakerru að halda! Ég vissi að mig langaði ekki aftur í vagn. Nei nú ætlaði ég að kaupa mér einhverja framúrstefnulega kerru sem biði upp á það að vera með vagnstykki og bílstól. Ég skoðaði systkinakerrur s.s. Silver Cross Wave og Baby Jogger City Select en sá fljótlega að þyngdin á Bjarti maxaði öll þyngdarviðmið fyrir slíka kerru. Ég ákvað þá að fá mér kerru sem útilokaði ekki að Bjartur gæti notað hana vegna hans þyngdar og þyldi a.m.k. 25 kíló í kerrustykkinu. Þá vildi ég einnig geta svissað vagnstykki og kerrustykki án miklar fyrirhafnar eftir því hvor þeirra bræðra væri að nota kerruna.

Eftir heilmikla skoðun, google leitir fram eftir nóttu og kerrugláp bæði heima og erlendis komst ég að þeirri niðurstöðu að Silver Cross Pioneer og Bugaboo Fox myndu henta okkur best. Fox á að þola um 22 kg í kerrustykkinu en Pioneer um 25 kíló. Hins vegar er smá fyrirhöfn að breyta Bugaboo Fox úr vagni í kerru en taka þarf stöng úr vagnstykkinu og festa kerrustykkið á hana. Þó er hægt að kaupa auka stöng en ég nennti ekki að standa í slíku. Hvorugar kerrurnar bjóða upp á að barnið geti legið alveg lárétt í liggjandi stöðu þar sem sætinu er einfaldlega hvolft aftur en ekki sætisbak fært upp eða niður. Það þykir mér vera stór galli en þar sem ekkert annað virtist vera á boðstólnum ákváðum við (ég!) að Silver Cross Pioneer kerran hentaði okkur best.  Keyptum við hana og bættum við Silver Cross Reflex fyrir skottið og Silver Cross bílstól og beisi til að geta notað þetta allt saman.

Kerran kom í kassa og mjög auðvelt var að setja hana saman. Henni fylgdu bílstólafestingar, glasahaldari, svunta og regnplast. Við Bjartur vorum MJÖG spennt að prófa kerruna og fórum við í göngutúr við fyrsta tækifæri. Það fór ágætlega um Bjart í kerrustykkinu, svuntan sem fylgdi með var þó of lítil fyrir hann þar sem fæturnir stóðu vel fram úr kerrustykkinu. Bjartur var ánægður með að geta snúið að mömmu sinni í kerrunni og þótti mér það einnig ágætis tilbreyting eftir að hafa verið með hann í Baby Jogger City Elite kerrunni. Bjartur hefði vel geta tekið lúr í kerrunni og kom sér ágætlega fyrir í því í liggjandi stöðu en þrjár hallastillingar eru á kerrustykkinu. Þá er einnig á því fimm punkta belti og fótskemill sem hægt er að færa upp og niður. Gott var að keyra kerruna inni og hjólin virkuðu vel en um leið og út var komið kom í ljós að þau réðu ekki við mikið meira en parketið heima. Við minnstu misfellu i gangstéttinni stoppaði kerran og þurfti þá að lyfta fremri hjólum upp til að komast leiðar sinnar. Þetta var sérstaklega slæmt með Bjart í kerrunni þar sem hann er það þungur en var líka vandamál með Mána í vagnstykkinu.

Svo loksins kom Máni í heiminn og gátum við þá farið að nota vagnstykkið. Það sem mér leist strax vel á varðandi vagnstykkið var hversu ótrúlega mjúkt áklæðið er, sem er úr bambus. Dýnan í vagnstykkinu var einnig góð, með bambusáklæði sem auðvelt var að taka af og þvo.  Mána leið vel í vagnstykkinu og svaf í því á næturnar ferðalögum fjölskyldunnar í sumar. Þá er vagnstykkið þétt úr plasti og bæði svuntan og skermurinn úr nokkuð þykku vindheldu efni.

Kostir: Helstu kostir Silver Cross Pioneer kerrunar eru einfaldir takkar til að setja vagnstykki, kerrustykki og bílstól af og á. Þá er auðvelt að stækka og minnka handfang með aðeins einum takka. Auðvelt er að leggja kerruna saman með því að toga í tvo takka sitthvoru megin á handfanginu. Karfan undir vagninum er ágætlega stór og er gott aðgengi að henni þegar kerrustykkið er á. Ágæt fótbremsa er á kerrunni sem þarf að losa með því að stíga á takka á henni. Þá er kerrustykkið rúmgott og vagnstykkið mjúkt.

Gallar: Það var því miður heldur margt sem pirraði mig við þessa kerru. Þá helst hvernig það var að keyra hana. Bæði virðast dekkin ekki ráð við misfellur í veginum og svo er dempunin í sjálfri kerrunni lítil svo hún hentar líklega best á spegisléttu malbiki.  Kerran var í notkun hjá okkur frá maí til september og því höfum við ekki reynslu af því að aka með hana í snjó. Hún réð þó illa við malarveg og í raun alla aðra færð en parket svo ég reikna ekki með því að hún hefði komist langt í slyddu eða snjó!

Það var svolítið plasthljóð í kerrunni sem kemur líklega frá dekkjunum sem eru úr hörðu plasti en það gaf manni „cheap“ upplifun sem er ekki það sem maður sættir sig við á vagni merktum SILVER CROSS, royal barnavagna!

Þrátt fyrir að það hafi verið auðvelt að leggja kerruna saman tók hún nokkuð mikið pláss í bílnum, sérstaklega ef vagnstykkið var á. Vagnstykkið var í það minnsta og var fjögurra mánaða Máni okkar farinn að ná enda á milli. Ég vissi reyndar að vagnstykkin á þessum fjölnota ferðakerrum væru yfirleitt heldur stutt því kom það mér á óvart að Máni átti samt sem áður inni þó nokkra sentimetra í vagnstykkinu á Bugaboo Buffalo. Vagnstykkið á Pioneer kerrunni er 76 sentimetrar en dýnan sjálf er aðeins styttri.

Skermurinn er ágætur en mun styttri en skermarnir á t.d. Baby Jogger City Elite og Bugaboo. Á skerminum er skyggni sem hægt að leggja inn í vagninn eða ýta því út. Ég vonaði að skyggnið myndi bæta upp stuttan skerminn en það gerði því miður ekki nógu mikið gagn. Ég fór því ekki með vagninn út án þess að hafa ábreiðuna mína frá coveredgoods eða regnplastið til að verja barnið frá sól og vind.

Karfan sem mér hafði litist ágætlega á  þegar kerrustykkð á var nánast ómöguleg í notkun með vagnstykkinu  á. Var þá afar lítið pláss til að setja dót í körfuna og þurfti ég stundum hreinlega að taka vagnstykkið af, með barninu í og leggja á gólfið til að geta raðað í körfuna.

Þá langaði mig að fá mér systkinapall á kerruna fyrir Bjart og var systkinapallurinn sem ætlaður kerrunni ekki spennandi að mínu mati. Hægt er að kaupa universal palla á kerruna en eftir að hafa lesið þó nokkrar umsagnir um hina ýmsu palla komst ég að þeirri niðurstöðu að ekki væri víst hvort gott væri að keyra kerruna með með pall sem ekki er sérstaklega hugsaður í notkun fyrir hana.

Þyngd:
Grind 7,5 kg, kerrustykki 2,5 kg, vagnstykki 3,5 kg

Stærðir:
Samanbrotin: lengd 86,5 cm x breidd 60 cm x hæð 33cm
Opin: lengd 90 cm x breidd 60 sentimetrar x hæð 107 cm

Samantekt: Ágætis kerra sem býður upp á marga möguleika með færanlegu vagn- og kerrustykki og gott að geta notað bílstól á kerrugrindina. Kerran hentar vel frá fæðingu og til 4/5 ára aldurs. Stór galli er þó að mínu mati keyrslueignleikar kerrunnar og hefði ég eflaust gefið henni meiri séns ef hún hefði ráðið betur við götur borgarinnar.

Silver Cross kerrur sem mig langar til að prófa og fjalla um

Silver Cross Zest 

Silver Cross Jet

Silver Cross Horizon Go