Ragnheiður Lára Guðrúnardóttir

Umsögn: Silver Cross Reflex

19. október, 2018 | Kerrur

Með bullandi samviskubit yfir því að hafa gefið Silver Cross Pioneer kerrunni lélega dóma (mig langaði að elska hana!!) ætla ég að demba mér í næstu Silver Cross umsögn. Um er að ræða kerru sem er afar vinsæl á Íslandi ef marka má mína eigin vettvangsrannsókn í verslunarmiðstöðvum borgarinnar. Þetta er kerran sem Sólrún Diego fékk sér í stað Baby Jogger City Mini öfugt við Guðrúnu Veigu sem skipti út þessari kerru fyrir Baby Jogger City Elite. Segið svo að ég fylgist ekki með! Ég vildi óska þess að ég gæti skrifað eina stutta umsögn án þess að hafa með ævisöguna en svo er bara ekki, þessi færsla mun hafa inngang, meginmál og lokaorð því þannig er lífið.

Helstu snapparar landsins fengu sér sem sagt Silver Cross Reflex kerru og það sem verra er, frænka mín sem er sú alklárasta kona sem ég þekki (hún er verkfræðingur!!) fékk sér hana líka og þá var ekki aftur snúið. Þessa kerru varð ég að eignast. Frænka mín þessi er ekki bara verkfræðingur heldur er hún nægjusamasti einstaklingur sem ég þekki. Þegar hún átti von á sínu fyrsta barni fór hún bara í bílskúrinn hjá foreldrum sínum og fann til gamla barnadótið sitt sem hún ákvað bara að nota. Þar á meðal 400 ára gamlan Brio vagn. Mér hinni ónægjusömu (það er orð!) sem var orðin virkilega spennt að fara í kerruleit með frænku leist nú ekkert á þetta en tók gleði mína á ný þegar hún komst að því að Brio vagninn var ekki málið. Hún valdi sér síðan alveg sjálf án minnar aðkomu (takk fyrir ekkert!) Silver Cross Reflex kerruna og lét hana bara duga frá því að barnið var fjögurra mánaða til dagsins í dag (barnið er rúmlega tveggja ára).

Ég ætla að leyfa hennar umsögn að fylgja með:

 Við höfum heilt yfir verið mjög ánægð með þessa kerru. Strákurinn okkar var fjögurra mánaða þegar við keyptum hana og hann notar hana ennþá (27 mánaða). Ég var að leita af kerru sem ég gat haft í skottinu en líka borið upp á þriðju hæð ef hann sofnaði í göngutúrnum. Við notuðum hana í raun eins og barnavagn, líka um hávetur.

Kostir: Hægt er að leggja bakið alveg niður, stilla hversu langt skermurinn nær niður (skýlir bæði íslenskum vindi og ítalskri sól), góð svunta og rengplast, þægilegt að ferðast með hana (hægt að kaupa poka utan um hana) og auðvelt að þrífa áklæðið

Ókostir: Hjólin eru ekki mjög robust (hvað þýðir það?? Verkfræðimál?) og festingin getur verið frekar stíf.

 

Umsögnin mín:

Ég hafði þráð þessa kerru í svolítinn tíma þegar ég keypti mér hana í desember 2017. Ég átti fyrir BJ City Elite kerruna og vildi fá mér léttari kerru í skottið. Fyrir mér var þessi kerra nánast fullkomin! Góður skermur, fótskemill, hægt að leggja bakið í alveg lárétta stöðu og svo þolir hún 25 kílóa barn sem var afar hentugt fyrir stóra Bjart minn. Þá var ég orðin ófrísk og sá fyrir mér að geta notað kerruna í einhverskonar ungbarnastillingu sem myndi henta vel fyrir nýfædda barnið og þeir bræður gætu þá samnýtt kerruna.

Silver Cross Reflex ungbarnastilling

 

Kerran kom í kassa og auðvelt var að setja hana saman. Með kerrunni fylgdi regnplast, öryggisslá, ungbarnainnlegg í sætið og bílstólafestingar fyrir Silver Cross bílstól (vel gert Silver Cross!). Við prófuðum hana strax heima og Bjartur (þá 2 ½ árs) rúmaðist vel í henni. Hann kom sér einnig vel fyrir í láréttri stöðu og hefði vel geta tekið lúr þannig.

Mér fannst kerran mjög falleg og fór (í minningunni) samdægurs niður í bæ að spóka mig um með hana. Kerran var þó heldur stíf og þurfti svolitla áreynslu við að leggja hana saman til að koma henni í bílinn. Hún er með þessari týpísku regnhlífakerru stillingum þar sem þarf að losa um öryggis takka neðst á kerrunni og svo einhvernveginn klemma hana saman og niður. Þetta gat maðurinn minn alls ekki, ég reyndi að sýna honum hvað þetta væri auðvelt (nýbúin að sannfæra hann um að þessi kerra væri málið og hann yrði þess vegna að láta mig hafa allan peningana sína) en ég lenti svo eiginlega í sömu vandræðum og hann. En kom henni þó saman og í bílinn. Niður í bæ héldum við og settum barnið í kerruna. Þá komu upp vandræði númer tvö, festingin á sætisólinum er mögulega aðeins flóknari en hún þyrfti að vera! Það er þetta sem maðurinn minn kallar japanskar gestaþrautir, þegar það þarf að setja stykki inn í annað stykki og það svo saman inn í smelluna. Smellan var svo stíf á kerrunni að þegar maður bisaðist við að þrýsta stykkjunum tveimur saman inn i smelluna hrökk samsetta stykkið alltaf í sundur.  Ég var enn mjög montin með þessa fallegu kerru svo ég sannfærði manninn minn um að festingin væri bara svona stíf því við værum jú að nota kerruna Í FYRSTA SKIPTI. Barnið væri líka það stórt að það þyrfti ekkert að vera fest í kerru!

Það var ágætt að keyra kerruna en þreytandi að þurfa sífellt að vera með báðar hendur á handföngunum en það er svo sem eðlilegur eiginleiki á regnhlífakerru. Sjálfri finnst mér mjög gott að geta keyrt og stýrt kerru með annarri hendi og haldið á síma, hjóli, bónuspokum eða leitt lítinn lófa með hinni (Merkilegt hvað maður þarf að geta margt með einni hendi þegar maður á börn!). Þá finnst mér dekk á regnhlífakerrum yfirleitt ekki spennandi en þau ráða oft illa við annað undirlag en malbik. Hins vegar er auðveldara að vippa kerrunni hingað og þangað (yfir snjóskafla) þar sem hún er létt. Dekkin á Reflex kerrunni eru 16 sentimetrar að þvermáli og hægt er að læsa þeim sem kemur sér vel þegar farið er yfir t.d. malarvegi.

Ágætis karfa er á kerrunni (40cm x 32cm x 14cm) en aðgengið að henni er frekar þröngt svo að ekki er hægt að setja innkaupapoka í hana. Þá er „foreldravasi“ aftaná bakinu sem er ágætlega rúmgóður. Fótbremsa er á kerrunni sem var góð í notkun. Sætið er rúmgott með fimmpunkta belti sem hægt er að hafa í þremur hæðastillingum.

Við notuðumst aðallega við kerruna í verslunarmiðstöðum og hentar hún vel í slíkum aðstæðum. Kerran er þó ágætlega stór (eða löng) og tók því svolítið pláss í skottinu svo ég hafði hana ekki alltaf með mér. Draumurinn er að eiga netta kerru sem „býr“ í skottinu. Ég þurfti til dæmis að taka kerruna út ef ég var að fara í stóra Bónus ferð.

Þegar Máni fæddist (maí 2018) fór ég að skoða þessa ungbarnastillingu betur en komst að því að kaupa þarf sérstakt stykki til að nota kerruna í þeim tilgangi og fékkst það ekki (svo ég viti til) hérna heima. Ég notaði hana því sáralítið fyrir Mána og aðeins í tvígang fyrir bílstólinn.

Einhvernvegin varð Silver Cross Reflex útundan hjá okkur og mjög lítið notuð í þessa mánuði sem við áttum hana. Ef til vill vegna þess að við áttum Baby Jogger kerruna fyrir og gripum frekar í hana fyrir gönguferðir og slíkt. Við seldum hana svo nú í haust þegar ég neyddist til að fækka í kerraflotanum vegna plássleysis.

Kostir: Kostir þessarar kerru eru tvímælalaust rúmgott og þægilegt sæti sem hægt er að leggja alveg í lárétta stöðu. Þá fylgir með kerrunni ungbarnainnleg úr memory foam sem er mjög djúsi og gerir mikið fyrir lítil kríli. Skermurinn er mjög góður og hægt er að renna honum saman. Gluggi er á skerminum sem eykur þægindi hans mjög. Kerran er í léttri kantinum eða 8,5 kg en fannst mér hún samt vera heldur þung fyrir snattkerru og renni nú hýru auga til Silver Cross Zest og Silver Cross Jet sem vega 5,8 kg. Þá eru tvær hæðastillingar á handfanginu sem hentaði okkur hávöxnu hjónum vel.

Gallar: Gallar kerrunnar eru stífar festingar en stífleiki þeirra gerði það að verkum að ég nennti nánast ekki að nota hana. Þá er einnig stíft að leggja kerruna saman og þurft ég helst að vera í skóm til þess verknaðar. Líklega losnar um festingarnar í notkun og gaman væri að heyra frá öðrum sem hafa meiri reynslu af kerrunni. Aðrir gallar eru ef til vill ósanngjarnt af mér að fjalla um því þeir  einkenna almennt regnhlífakerrur, leiðinleg dekk og það að þurfa að halda í bæði handföngin á keyrslu (það sem er á mann lagt!!).

Stærðir:

• Opin: 107cm x 61cm x 100cm
• Samanbrotin: 35cm x 31cm x 86cm

Samantekt:  Sem regnhlífakerra er Silver Cross Reflex fullkomin og mjög falleg. Kerran er að mínu mati mitt á milli þess að vera hin fullkomna létta ferðakerra og almennileg traustbyggð kerra og er þá bæði í senn allt og ekkert. Nægjusamir foreldrar gætu látið sér þessa kerru duga sem sína einu kerru því hún er fær í flestan sjó. Að mínu mati er hún ef til vill ekki sú hentugasta í íslenskar aðstæður nema þá sem auka kerra í snattið en þá er hún samt sem áður svolítið þung og fyrirferðarmikil. Sem regnhlífakerra fær þessi kerra 9/10 þar sem stærð/þyngd og stífleiki festinga dregur hana niður. Sem kerru (kerra?) gef ég henni 7,5/10.