Simo Kombi 625
Er til eitthvað fallegra en íslenskir vetrardagar þar sem sólin skín! Á slíkum dögum verð ég að komast út í göngutúr, getur maður verið með sólarsamviskubit líka á veturna!? Ég fékk kjörið tækifæri til að viðra mig og prufukeyra einn dáðasta vagn landsins í miðbæ Reykjavíkur á fallegum vetrardegi. Vagninn er í eigu vinkonu minnar sem er ein af þessum nægjusömu mæðrum sem fékk sér Simo vagn fyrir barnið sitt og lét það duga. Eða allavega þar til að ég smitaði hana aðeins af fjölvagna bakteríunni og núna ætlar hún að fá sér Baby Jogger City Elite og selja þennan gullfallega Simo vagn (sem ég er svona á mörkunum að kaupa sjálf, hvað er að mér!!).
Hinn norski Simo vagn hefur eflaust verið einn sá vinsælasti hér á landi síðustu áratugi. Því miður eru þeir ekki lengur til framleiðslu né sölu hér á landi. Þó er víða hægt að finna þá notaða s.s. á bland.is (verð frá 25.000 – 100.000) og á facebook sölusíðum. Þeir ganga kaupum og sölum fólks á milli mögulega vegna þess að endingin á þeim virðist vera endalaus og þeir eru klassískir í útliti.
Simo Kombi er í raun allt sem hinn fullkomni íslenski vagn þarf að vera. Hann er með mjög góða einangrun sem hentar vel á köldum vetrardögum. Hann er það sem kallast kerruvagn eða kerra sem hægt er að nýta sem vagn með burðarrúmi. Slíkur kerruvagn hentar vel í notkun fyrir tvö börn á sitthvorum aldri þar sem auðvelt er að taka burðarrúmið úr og nota hann þá sem kerru fyrir eldra barn.
Burðarrúmið er afar veglegt með þykkri dýnu og skerm þannig að í raun getur maður verið með tvo skerma í einu sem skapar betri einangrun fyrir barnið. Handföng eru á burðarúminu svo auðvelt er að flakka með það sem hentar til dæmis vel foreldrum sem búsett eru á hæð en þurfa að geyma vagn á jarðhæð. Burðarrúmið er um 77 sentimetrar og ætti að henta upp í 7 – 9 mánaða. Sumir Simo vagnar hafa bak í burðarúminu sem hægt er að reisa upp svo barnið geti setið. Það er ekki í þessum tiltekna vagni sem ég prófaði en virðast vera festingar fyrir slíkt bak.
Þegar barnið er orðið of stórt í burðarúmið er það tekið úr, skermurinn tekinn af og honum smellt á kerrustykkið til að loka kerruna af. Sætisbakið leggst alveg niður í lárétt stöðu og hefur kerran þá sambærilega þéttingu og ef um vagn væri að ræða. Þegar barnið er svo orðið of stórt í það getur það nýtt kerruna áfram sem svefnkerru þar sem kerrustykkið er um 92 sentimetrar sem er lengd á sirka 1 ½ til 2 ½ gömlu barni!
Kerrustykkinu er hægt að snúa bæði fram og aftur. Það er losað af grindinni með tökkum fyrir miðju stykkisins. Þrjár hallastillingar eru á sætisbakinu sem leggst alveg í lárétta stöðu og hægt er að hækka og lækka fótskemil. Þá eru tvær hæðastillingar á ólum. Bjartur kom sér vel fyrir í kerrustykkinu og breyttust ekki keyrslueiginleikar vagnsins við það að aka með þyngra barn.
Ef Simo væri á snúningsdekkjum væri hann ansi nálægt því að vera minn fullkomni vagn. Sjálf er ég ekki hrifin af vögnum sem eru ekki á snúningsdekkjum. Mér þykir leiðinlegt að keyra þá þar sem sífellt þarf að ýta handfanginu niður til að breyta um aksturstefnu. Það kom mér þó á óvart í reynsluakstrinum hvað vagninn var léttur um sig og lét vel að stjórn þrátt fyrir að hann sé heldur þungur. Dempunin í vagninum er fáránlega góð og allt annars eðlis en dempunin í t.d. Bugaboo og Silver Cross. Vagninn einhvern vegin dúar um og get ég rétt ímyndað mér hversu þægilegt sé að sofa í honum. Máni sofnaði a.m.k. um leið og ég lagði hann í vagninn og svaf þar í þrjá klukkutíma!
Í reynsluakstrinum prófaði ég að fara með vagninn inni í verslun (nýju H&M sem var mögulega ástæða þess að ég varð að fara niður í bæ) og var svo sem ekki mikið mál að koma vagninum á milli rekka. Breidd vagnsins er 61 sentmeter sem svipuð breidd og á Bugaboo Fox.
Á vagninum eru loftdekk en þau eru nú ekki í uppáhaldi hjá mér sjálfri. Slík dekk bjóða vissulega upp á góða dempun og ráða betur við ójöfnur heldur en plastdekk en ef það er ójafnt loftmagn í dekkjunum er hætta á að vagninn verði hjólaskakkur. Þá þarf að pumpa reglulega í slík dekk og þau geta sprungið ef keyrt er yfir gler eða málmflísar. Flestir nýjir vagnar/kerrur hafa dekk sem eru froðufyllt og líkja þau eftir loftekki án þess að hætta sé á leka. Þau eru þó aðeins þyngri en loftdekkin og geta verið stamari í akstri.
Simo er um 20 kíló að þyngd en það kom mér á óvart hve létt stellið sjálft var og hugsa ég að þyngdin sé fyrst og fremst í kerrustykkinu og burðarrúminu. Það tók aðeins í að draga vagninn upp tröppur og hentar þessi vagn líklega best þeim sem hafa færi á að geyma hann á jarðhæð. Það er ekki mikið mál að leggja vagninn saman, kerrustykkið er tekið af og grindin lögð saman en þetta allt saman tekur svolítið pláss eins og svo margir vagnar gera.
Bæði skermurinn, svuntan og áklæði er úr afar slitsterku efni, það sér eiginlega ekki á efninu á 10 – 20 ára gömlum Simo vögnum! Skermurinn sjálfur er mjög veglegur, mætti ef til vill ná aðeins lengra niður en hann veitir gott skjól fyrir veðri og vindum.
Lykilpunktar:
- Þyngd 20 kg
- Stærðir:
- Burðarrúm: 79 cm
- Lokað kerrustykki með skerm af burðarrúmi: 90 cm
- Kerrustykki: 92 cm
- Breidd: 60 cm
- Burðarrúm fylgir með.
- Kerrustykki getur snúið fram og aftur.
- Kerrustykki leggst alveg niður í lárétta stöðu.
- Þungur í keyrslu.
- Tekur mikið pláss í skotti.
Samantekt: Simo vagn býður upp á fyrsta flokks þægindi fyrir barnið þitt. Góð einangrun, gott pláss og mikil dempun. Klassískt útlit og vagn sem endist árum saman. Heldur þungur fyrir þá sem þurf að ferðast mikið með vagninn í bíl eða koma honum upp stiga á heimili sínu. Án snúningshjóla og því erfiðara að keyra hann heldur en þær kerrur/vagnar sem eru á markaðnum í dag. Ef þú ert tilbúin/n að fórna þínum þægindum fyrir þægindi barnsins þíns þá er þessi vagn algjörlega málið.