Ragnheiður Lára Guðrúnardóttir

Umsögn: Brio Nova 2006

19. september, 2018 | Kerrur

Fyrsta færslan á þessu stórmerkilega kerrubloggi verður  sjálfsögðu um fyrsta vagninn minn! Elsku dýrgripurinn var að gerðinni Brio Nova og var 2006 árgerð.  Ég keypti hann fyrst og fremst vegna litarins sem var eins og retro litapallíetta frá árinu 1972 og svo var hann á afslætti. Ég hafið stormað inn í danska barnavöruverslun með fyrrum tengdamóður minni og barnsföður, komin um 20 vikur á leið. Ætlaði mér reyndar að kaupa Emmaljunga eða Simo vagn man ekki alveg hvorum ættbálknum ég hafði ákveðið að tilheyra. En svo sá ég hann þarna á afslætti, 1999 kr danskar fyrir kerru og svo burðarrúm sem passaði í á 999 krónur.  Þrjátíuþúsund kall á sterkri íslenskri krónu (sem hrundi svo heldur betur ári seinna!). Þarna lærði ég líka nýtt orð, kerruvagn. Það er sem sagt kerra sem þú getur breytt í vagn með burðarúmi.

Eftir smá fortíðarþrá og googl um þennan ágæta vagn komst ég að því að daninn kallar hann kombivogn og sportsvogn:

Brio Nova er en popluær vogn – som er aller best som sportsvogn. Vognen er stabil med et lavt tyngdepunt. Kan kjøpes med mykbag. Frontbøylen kan felles ned og frem noe som gjør det enklere å løfte ut barnet. Fempunkts sele er standard.”

 

Já krakka mínir, þvílíkur eðal sportsvagn! Burðarrúmið kom sér agalega vel og reyndar sakna ég þess að vera ekki með burðarrúm núna. Við foreldrarnir notuðum það óspart í matarboðum og til að drösla sofandi barni inn í íbúð án þess að vekja það. Vagninn var einfaldur í notkun og auðvelt að leggja hann saman. Það var gert með því að toga upp takka sitthvoru megin á handfanginu eins og er á mörgum vögnum. Þá var auðvelt að snúa kerrustykkinu fram eða aftur.

Vagninn tók þó heldur mikið pláss  í skottinu, svona eins og vagnar gera. Hann var 14 kg sem er aðeins tveimur kílóum þyngri en  t.d. Baby Jogger City Elite og Bugaboo Buffalo. Svo léttur var hann. Það kom sér vel að vera með skerm á burðarúminu því vagninn var afar þéttur svona tvískermaður sem hentaði litu vetrarkríli vel. Burðarrúmið var 87 sentimetrar, sem ég held að sé aðeins lengra en vagnastykkið á þessum venjulega Emmaljunga vagni og kerrustykkið var 108 sentimetrar sem telst nokkuð langt!

Ég fór í fyrsta göngutúr með vagninn þegar Birgir Orri var tveggja vikna, lá þá leiðin frá Eggertsgötu á Hjarðarhaga í fimmtugsafmæli móður minnar. Barnið grét bæði á leið í veislu og úr henni og þótti mér það hin mesta skelfing. Þennan ágæta kerruvagn þrammaði ég með daglega (í minningunni) í gönguferðum sem varað gátu klukkutímum saman. Svo gott þótti mér að vera á röltinu. Mér leiddist þó að stýra vagninum og þurfa sífellt að ýta handfanginu niður til að breyta um stefnu þó það væri ekki nema um nokkrar gráður. Það þurfti ég ítrekað að gera í göngu á Laugarveginum til að ganga ekki á þá sem komu á móti mér og færðu sig ekki úr vegi. Í einni gönguferðinni mætti ég konu með vagn/kerru með snúningshjólum og VARÐ ég að prófa slíkan grip! Elsku Brio var skellt á bland.is, seldur og Graco trekko kerra keypt í stað hans(!).

Brio hætti framleiðslu á þessum vögnum 2006 og en hélt áfram að framleiða svipaðar útgáfur til ársins 2009. Brio vagna/kerruframleiðslan var svo keypt af Britax sem hægt er að finna t.d. í barnavöruversluninni Fífu. Úrvalið hér á landi af hefðbundum vögnum með fjórum dekkjum hefur farið minnkandi með árunum en t.d. eru Emmaljunga vagnarnir nær eingöngu fáanlegir með snúningshjólum að framan (sem hægt er þó að læsa) og Simo vagnar ekki lengur framleiddir. Hægt er að fá „hefðbundinn“ vagn t.d. frá Silver Cross og í versluninni Barnið okkar

Samantekt: Ég mæli hiklaust með þessari elsku sem svalavagni sérstaklega ef burðarrúm fylgir með. Það á einnig við um Simo vagnana en ég hef ekki gerst svo fræg að eiga einn slíkan (er ekki kominn tími til!). Eins og áður kom fram þótti mér mjög gott að eiga burðarrúm og þægilegt að gera gert barnið klárt í burðarrúminu inni í herbergi eða hvar sem er og flutt það svo í vagninn sjálfan. Það verður líka exta þétting á vagninum að hafa burðarúmið í sem er mjög gott yfir háveturinn.